Skip to main content

Frístundastyrkir í Fjarðabyggð með þeim allra lægstu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. okt 2022 14:46Uppfært 24. okt 2022 09:19

Þær tíu þúsund krónur sem sveitarfélagið Fjarðabyggð veitir í styrki á hvert barn vegna tómstundastarfs er með því allra lægsta samkvæmt nýlegri úttekt Alþýðusambands Íslands (ASÍ.)

Verðlagseftirlit ASÍ gerði úttekt á frístundastyrkjum hjá 20 stærstu sveitarfélögum landsins fyrr í haust en þetta er í annað skiptið sem gerð er slík úttekt. Yfirstandandi ár er það fyrsta sem Fjarðabyggð veitir slíka styrki en tekið skal fram í úttektinni er ekki tekið tillit til annars stuðnings sveitarfélaganna vegna íþrótta- eða tómstundastarfs barna og unglinga en sá stuðningur getur verið af margvíslegum toga. Þá getur líka verið munur milli sveitarfélaga fyrir hvaða aldursbil styrkirnir gilda.

Sem fyrr segir fær hvert barn í Fjarðabyggð frístundastyrk upp á 10 þúsund krónur en hæstu styrkina fá börn í Kópavogi eða 56 þúsund krónur. Reykjavík hyggst hækka sína styrki um næstu áramót í 75 þúsund krónur á barn. Þá eru tveir staðir á lista ASÍ sem ekki bjóða upp á neina slíka styrki en það eru Grindavíkurbær og Ísafjarðarbær.

Einnig kemur í ljós að frístundastyrkir Múlaþings nú eru jafn háir og hjá Fljótsdalshéraði þegar það var og hét eða réttar 30 þúsund krónur á barn.

Listi ASÍ sýnir drjúgan mun á frístundastyrkjum milli sveitarfélaga en það segir ekki alla söguna því annars konar stuðningur gæti komið til. Graf ASÍ.

UPPFÆRT:

Fjarðabyggð vill koma eftirfarandi á framfæri vegna könnunar ASÍ og fréttar Austurfrétta á frístundarstyrkjum sveitarfélaga.

Samkvæmt könnunni eru styrkir Fjarðabyggða til frístunda barna þeir lægstu á landinu að undanskildum Ísafjarðarbæ og Grindavíkurbæ.

Rétt er að beinir styrkir til foreldra eru 10.000 kr. á barn. Auk þess nema beinir styrkir til íþróttafélaga í sveitarfélaginu um 63 milljónum. Því má horfa á að heildarstyrkir á hvert barn á aldrinum 6-18 ára í Fjarðabyggð nemi því um 88.544 kr.  Þessir styrkir hjálpa því eflaust til í því að  íþróttafélögin í Fjarðabyggð geta boðið uppá mun ódýrari æfingagjöld en gengur og gerist annarstaðar og er munurinn í einhverjum tilvikum allt að 50%.