Skip to main content

Því sem næst fullmannað í öllum leik- og grunnskólum í Múlaþingi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. ágú 2022 17:14Uppfært 24. ágú 2022 17:27

„Það er skemmtilegt frá því að segja að það hefur ekki gengið betur að ráða starfsfólk í skólana hér á svæðinu í langan tíma,“ segir Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir, fræðslustjóri Múlaþings.

Skólahald er hafið víðast hvar með tilheyrandi tilhlökkun flestra á leik- og grunnskólaaldri en eins og kunnugir vita hefur ekki alltaf verið leikur einn að manna stöður í skólunum hér austanlands.

Sigurbjörg kann enga sérstaka skýringu á hvers vegna það hefur gengið framar vonum fyrir þetta skólaár en tekur þó fram að hluti þeirra sem hér um ræðir séu leiðbeinendur þó krafan sé ávallt um að starfsfólkið sé menntað í sínu fagi. Einungis eigi eftir að ráða í eina stöðu eða svo sem er snöggtum betri staða en oft áður.

Hún staðfestir jafnframt að vegna þessarar stöðu komist öll börn, eins árs og eldri, að í leikskólum sveitarfélagsins og segist ekki vita annað en að glænýr leikskóli í Fellabæ muni hefja starfsemi á tilsettum tíma í næsta mánuði en ráð er fyrir gert að hann opni formlega þann 20. september.

Mannekla er ekki óþekkt vandamál í skólum Austurlands en í Múlaþingi hefur tekist að fullmanna alla leik- og grunnskóla fyrir þetta skólaár. Mynd Seyðisfjarðarskóli