Skip to main content

Funda með Vegagerðinni vegna vetrarþjónustu með haustinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. ágú 2022 09:43Uppfært 24. ágú 2022 09:51

Múlaþing hyggst funda með fulltrúum frá Vegagerðinni með haustinu varðandi breytta og bætta vetrarþjónustu í sveitarfélaginu.

Þetta staðfestir Björn Ingimarsson, sveitastjóri, við Austurfrétt en þegar hefur einn slíkur fundur farið fram milli þessara aðila þar sem þjónustumál ýmis konar voru í forgrunni. Annar slíkur sé framundan þar sem eitt meginmálið verður þjónustan að vetrarlagi.

Síðasti vetur var rysjóttur í meira lagi austanlands og þá komu fram margvíslegar og ítrekaðar óskir íbúa hér og þar um bætta þjónustu á vegum úti. Bárust sveitarfélaginu kvartanir frá hinum ýmsu stöðum, allt frá Borgarfirði eystra að Jökuldal. Ýmsir voru á því máli að vetrarþjónusta hefði ekki verið lakari um árabil.

Sveitarstjórn lét einmitt bóka sérstaklega vegna þessara kvartana að mikilvægt væri að samgöngur væru tryggðar innan sveitarfélagsins alla daga vikunnar væri þess nokkur kostur. Þá skyldi farið fram á að Vegagerðin fengi heimild til að breyta þjónustuflokkum á fáfarnari vegum er lægju innan fjölkjarnasveitarfélaga en slíkir vegir fá sjálfkrafa minni þjónustu að vetrarlagi samkvæmt sérstakri flokkun sem Vegagerðin fylgir.