Fylgjast með úrkomunni eystra - Myndir

Veðurstofan fylgist með úrkomu og áhrifum hennar á vatnsmagn í jarðvegi og ám á Austurlandi. Flóð stendur enn í Grímsá og vatnsborð í Lagarfljóti hækkar enn meðan sjatnað hefur í flestum öðrum ám sem uxu í nótt.

Samkvæmt mælum Orkusölunnar, sem rekur virkjunina í Grímsá, tók vatnsyfirborð árinnar að hækka hratt upp úr miðnætti. Hámark flóðsins í ánni virðist hafa verið milli 9 og 10 í morgun en síðan hefur lítið sjatnað í ánni.

„Hún er enn mórauð og beljandi,“ segir Pálmi Sigurðsson, stöðvarstjóri. Rennsli um yfirfall virkjunarinnar í morgun mældust 380 rúmmetrar á sekúndu.

„Grímsáin getur komið á óvart. Alla jafna er hún látlaus og falleg en síðan getur hún orðið svona beljandi á ótrúlega stuttum tíma.“ Tvær gröfur stóðu í árfarveginum neðan brúarinnar yfir ána. Önnur þeirra fór nánast á kaf og telja má að hún sé mikið skemmd. Hjá hinni hefur aðeins flotið yfir beltin og hefur hún því trúlega sloppið mun betur.

Talsverð hækkun í Lagarfljóti

Samkvæmt mælum Veðurstofu Íslands varð mikill vöxtur í Fossá í Berufirði og Geithellnaá í Álftavirði en sá vöxtur var búinn um hádegið. Vatnshæð í Lagarfljóti við Egilsstaði hefur hækkað um rúma 30 sm. síðan í morgun. Þar er fylgst með stöðunni.

„Rigningin kemur í gusum en síðan stoppar á milli þannig vatnið sjatnar aðeins,“ segir Esther Hlíðar Jensen, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofunnar. Þar er meðal annars fylgst með rennslinu í fljótinu.

Fylgst með hreyfingum á Seyðisfirði

Vatnavextirnir stafa af miklum rigningum á Austurlandi undanfarna daga. Samkvæmt yfirliti frá Veðurstofunni er uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði undanfarna viku tæpir 200 mm. Vatnshæð í borholum bæði þar og á Eskifirði er há þótt hún hafi lækkað aðeins um helgina.

Á Seyðisfirði varð hreyfing á hrygg við Búðará sem einnig var á hreyfingu fyrir rúmu ári. Hreyfingin nú var 5-15 mm meðan hún var um metri á nokkrum vikum í fyrra. Hún virðist hafa stöðvast og er ekki talin ástæða til aðgerða. Smá hreyfing mældist á radarmælingum í Þófa. Engar tilkynningar hafa borist um skriður eystra.

Áfram er spáð talsverðri rigningu næsta sólarhringinn. Eitthvað á að draga úr henni á morgun en aðfaranótt miðvikudags er viðbúið að bæti aftur í. Hjá Veðurstofunni fengust þær upplýsingar í dag að náið væri fylgst með stöðunni.

Þar er verið að keyra nýtt spálíkan við hlið eldra líkans. Mismunur er í úrkomuákefð í líkönunum þótt endanlegt úrkomumagn sé hið sama.

Grimsa Flod Nov22 0003 Web
Grimsa Flod Nov22 0006 Web
Grimsa Flod Nov22 0007 Web
Grimsa Flod Nov22 0009 Web
Grimsa Flod Nov22 0017 Web
Grimsa Flod Nov22 0018 Web
Grimsa Flod Nov22 0019 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.