Fyrst Akureyri, síðan Egilsstaðir

Tveggja tíma seinkunn er þegar orðin á morgunflugi Icelandair til Egilsstaða en mikil vandræði hafa verið á flugflota félagsins síðustu vikur.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði vélin í Egilsstaði farið í loftið klukkan 7:30 en að því er fram kemur á upplýsingasíðu Icelandair er áætluð brottför nú 9:40 eða tveimur tímum og tíu mínútum á eftir áætlun.

Ástæðan mun vera sú að önnur af tveimur stærri flugvélum Icelandair, sem eru hvor um sig taka helmingi fleiri farþega en þær minni, er biluð. Sú sem eftir er sinnir því líka áætlun hinnar.

Hún byrjar því morguninn á að fara í loftið norður til Akureyrar og til baka til Reykjavíkur áður en hún fer austur. Samkvæmt áætlun hefði hún átt að fara í loftið klukkan 7:10 en brottförinni hefur nú verið seinkað um 50 mínútur eða til klukkan 8:00. Ekki hefur enn verið tilkynnt um frekari seinkunn á Egilsstaðafluginu vegna þessa.

Þessu til viðbótar hafa einnig verið vandræði á minni vélunum og þess vegna er þegar orðin tveggja tíma seinkunn á flugi til Ísafjarðar í dag.

Vandræðin hófust í gærmorgun þegar snúa þurfti annarri stóru vélinni við úr morgunfluginu til Akureyrar. Í kjölfarið var morgunfluginu til Egilsstaða aflýst. Til að reyna að bregðast við uppsöfnuðum vanda var ákveðið að senda þotu frá Reykjavík til Akureyrar og Egilsstaða um kvöldið.

Ferð hennar seinkaði einnig verulega. Upphaflega átti hún að fara austur úr Reykjavík klukkan 19:15 en gerði það ekki fyrr en tveimur tímum seinna. Þeir farþegar sem bókað áttu með henni til baka lentu því syðra klukkan 23:20 í gærkvöldi. 

Í viðtali við RÚV í gærkvöldi sagðist forstjóri Icelandair reikna með að ástandið yrði komið í lag í næstu viku „ef ekkert kæmi upp á.“ Hann skýrði einnig frá því að af fimm vélum innanlandsflugsins væru aðeins tvær til taks núna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.