Fyrsta flug vélar Nice Air um Egilsstaði

Súlur, vél norðlenska flugfélagsins Nice Air, flaug um Egilsstaðaflugvöll í fyrsta sinn í gær er hún flutti starfsfólk Loðnuvinnslunnar og fleiri til Glasgow í Skotlandi.

Um 300 manns voru á flugvellinum þegar mest lét í gær, því auk Skotlandsfara voru á sama tíma full áætlunarvél Icelandair frá Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia gekk afgreiðsla vélanna vel þótt báðar væru fullar.

Tvær innritunarraðir voru, annars vegar fyrir Egilsstaði, hins vegar Glasgow. Farþegar innanlandsflugi biðu síðan og fóru út um sal þar sem farangursbelti flugstöðvarinnar eru meðan millilandafarþegarnir fóru í gegnum hefðbundna vopnaleit áður en þeir færðu sig yfir í aðalbiðsal stöðvarinnar.

Þetta er annað flug Nice Air um Egilsstaði en fyrir skemmstu annað það leiguflug fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar sem fór í árshátíðarferð til Póllands. Nice Air leigði vél í það verk en var nú með eigin vél.

Tekið var á móti Súlum með viðhöfn þar sem slökkvibílar sprautuðu vatni á hana þegar hún renndi upp að flugstöðinni. Flugið til Skotlands gekk vel, flugtíminn var 1 klukkustund og 44 mínútur.

Í samtali við Austurfrétt sagðist Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Nice Air, vonast til leiguflug um Egilsstaðaflugvöll væri vísirinn að áætlunarflugi síðar meir. Flugfélagið hafi fullan hug á að koma því á en það velti mikið á eftirspurn erlends ferðafólks.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.