Skip to main content

Gefa sér nokkur ár til að skipta út glóperum í Múlaþingi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. nóv 2022 15:21Uppfært 26. nóv 2022 15:00

Forgangur er hjá sveitarfélaginu Múlaþingi að skipta út hefðbundnum glóperum ljósastaura í ljósdíóður [LED] í helstu þéttbýliskjörnum áður en hafist verður handa við að að skipta þeim út í dreifbýlinu. Það ferli gæti tekið nokkur ár.

Austurfrétt lék hugur að vita áætlanir Múlaþings varðandi að skipta út gamaldags glóperum fyrir LED-perur í ljósastaurum innan sveitarfélagsins en vart fyrirfinnst auðveldari leið til að spara mikið rafmagn og kostnað aukinheldur með tilliti til að LED-perur nota 70% til 90% minna rafmagn en hefðbundnar perur, eru almennt öruggari og endast töluvert lengur en eldri tegundir af glóperum.

Í svari sveitarstjóra Múlaþings, Björns Ingimarssonar, við fyrirspurninni kemur fram að ekki sé búið að áætla hvenær skipta skal út gömlum glóperum fyrir LED í dreifbýli sveitarfélagsins. Unnið sé að uppsetningu LED í ljósastaura í helstu bæjarkjörnum en til þess sé horft að skipta út í sveitunum eftir því sem fjármagn og tími gefist til í framtíðinni.