„Gengið mjög vel að slá niður eldinn frá fyrstu handtökum“

Slökkviliðið á Egilsstöðum berst enn við að verja aðstöðu Landsnets í húsnæðinu að Miðási 7 við Fagradalsbraut eftir að eldur kom upp í þvottahúsi Vasks í öðrum enda hússins. Slökkviliðsstjóri segir aðgerðirnar hafa fengið vel. Áfram er varað við reyk sem leggur úr húsinu.

„Útkallið barst 16:26, fyrstu menn og bílar voru komnir 3-4 mínútum síðar og byrjaðir að sprauta á eldinn eftir fimm mínútur. Nánast frá fyrstu handtökum gekk okkur mjög vel að slá niður eldinn. Miðað við aðstæður hefur þetta gengið ótrúlega vel,“ segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri hjá brunavörnum á Austurlandi.

Segja má að húsið sé þrískipt. Í þeim enda sem snýr að veginum yfir Fagradal er þvottahúsið, þar sem eldurinn var hvað mestur frá byrjun, verslun Vasks í miðjunni en síðan verkstæði og skrifstofur Landsnets í þeim hluta sem snýr að miðbæ Egilsstaða.

Áhersla á að verja aðstöðu Landsnets

Aðstaða Vasks varð fljótt alelda og virðist gjörónýtt. Við slökkvistarfið allt kapp verið lagt á að verja aðstöðu Landsnets. „Þetta varð ofboðslega mikill eldur mjög hratt. Um leið og við komum sáum við að við þyrftum að verja Landsnetsendann og fórum í það strax. Það er greinilegt að á milli bilanna er mjög öflugur eldvarnarveggur sem hefur haldið.

Okkar áhersla hefur verið á að verja Landsnetshúsið og mér sýnist það vera að takast að mestu leyti. Auðvitað verða þar þó skemmdir af reyk, vanti og kannski eldi. Hinu gátum við ekki bjargað.

Við erum nú að verða búnir að slökkva megnið af eldinum í Vaski. Við erum að rjúfa þakið og vinnum það með krana með slökkviliðsmönnum í körfu. Við sjáum að það er mikill hiti í þessu og við reynum að kæla það sem við sjáum að er heitt. Þakið er fallið niður á gólf og við sjáum að það eru glóðir út um allt. Það fer enginn inn í þetta hús, það er alltof hættulegt.“

Mikilvægt að íbúar séu á varðbergi gagnvart reyk

Við slökkvistarfið barst aðstoð úr nærliggjandi byggðalögum. „Við kölluðum strax til varabíl frá Isavia á Egilsstaðaflugvelli og síðan höfum við fengið mannskap og tæki frá slökkviliðunum á Seyðisfirði og í Fjarðabyggð. Hér hefur líka verið björgunarsveitarfólk að aðstoða við slöngulagnir og lokanir á umferð. Við erum fjölmenn og þetta hefur gengið ótrúlega vel.“

Frá húsinu lagði þykkan, svartan reyk. Þá er næsta hús innan við verkstæði Brúnáss en fyrir ofan er miðstöð björgunarsveitarinnar. „Það er greinilegt að í þakinu eru einingar úr plasti og frá þeim leggur dökkan og mikinn reyk. Inni í efnalauginni eru líka alls konar efni og hjá Landneti eru efni sem við viljum ekki vera nálægt ef brenna. Vindáttin var okkur þó hagstæð og stóð frá næstum húsum og yfir Fagradalsbrautina.

Það er mikilvægt að íbúar geri sér grein fyrri að það verður reykur yfir bænum fram eftir kvöldi og nótt. Þess vegna þarf fólk að loka gluggum og íbúar með öndunarerfiðleika verða að fara varlega. Reykurinn er enn eitraður og vindurinn þarf ekki að breytast mikið þannig við lendum í vandræðum með hann.“

Haraldur Geir segir að slökkvistarfinu sé alls ekki lokið. „Við verðum fram eftir kvöldi og nóttu að slökkva í glæðum og tryggja að ekki sé eldur í neinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.