Skip to main content

Gera ráð fyrir viðsnúningi hjá Fjarðabyggð á næsta ári

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. nóv 2022 09:26Uppfært 10. nóv 2022 09:27

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs á næsta ári verði jákvæð um 129 milljónir króna. Raungerist það verður um verulega jákvæðan viðsnúning að ræða því áætluð útkoma A-hlutans á yfirstandandi ári er neikvæð um 120 milljónir króna.

Þetta kemur fram í greinargerð bæjarstjórans, Jóns Björns Hákonarsonar, þegar hann mælti fyrir fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar á næsta ári og fram til ársins 2026. A-hluti bæjarsjóðs samanstendur af aðalsjóð auk eignasjóða sveitarfélagsins meðan B-hlutinn dekkar veitustofnanir, hafnarsjóð, félagslegar íbúðir og sorpstöðvar bæjarfélagsins.

Bæjarstjórinn tiltekur þó þann fyrirvara á þessum jákvæðu teiknum að til að þetta nái fram að ganga þurfi stjórnendur sveitarfélagsins að sýna mikinn aga varðandi útgjöld. Í því skyni skal hægja á fjárfestingum A-hlutans á næsta ári meðan tekist er á við verðbólgu í landinu. Helstu fjárfestingar næsta árs verða stækkun leikskólans Dalborgar á Eskifirði og einnig er stefnt að því að ljúka framkvæmdum við skjalageymslu sveitarfélagsins á Norðfirði.

Þá skal jafnframt á milli umræðna um fjárhagsáætlun vinna sérstaklega með tvö verkefni sem skoða þurfi nánar. Annars vegar stöðu úrgangsmála í Fjarðabyggð en kostnaður hefur vaxið hratt á því sviði síðasta ár og hann muni aukast verulega ef ekki verður gripið þar inn í. Þá skal og vinna úttekt á viðhaldsþörf íþróttamannvirkja sveitarfélagsins og nota niðurstöðurnar sem innlegg í stefnumörkun til framtíðar.