Grunur um flensu í súlum á Austurlandi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. ágú 2022 11:04 • Uppfært 09. ágú 2022 11:06
Óttast er að fuglaflensa sé komin upp í súlum á Austurlandi og mögulega skúmum einnig þótt ekkert tilfelli sé enn staðfest. Sérgreinalæknir hjá Matvælastofnun óskar þess að fólk láti vita af dauðum fuglum.
Samkvæmt heimildum Austurfréttar hefur að undanförnu fundist nokkuð af dauðum súlum á Austfjörðum að undanförnu. Einkenni þeirra þykja um margt svipa til fuglaflensunnar. Eins hefur fundist töluvert af dauðum skúmum á Héraðssandi.
Brigitte Brugger, sérdýralæknir alifugla hjá Matvælastofnun, segir að verið sé að fara yfir tilkynningar sem borist hafi stofnuninni um dauða fugla síðustu daga. Hún staðfestir að grunur sé um að flensan sé komin í súlur á Austurlandi. Ekkert er þó staðfest um það því sýni úr dauðum fuglum hafa ekki verið greind. Enn séu trúlega tvær vikur í að niðurstöður liggi fyrir.
Sömuleiðis hafi borist tilkynningar um aukin dauðsföll skúma. Ekkert liggi þó fyrir um hvort það sé vegna flensunnar eða annarra náttúrulegra orsaka. Í vor greindist flensa í bæði dauðum skúm og súlum annars staðar á landinu. Ekki er hægt að taka sýni úr öllum dauðum fuglum en að sögn Brigitte er grunur um að flensan hafi haldið áfram að dreifa úr sér í sumar.
Reglur um að ekki megi hleypa alifuglum út undir beran himinn eru áfram í gildi. Í undirbúningi eru reglur til veiðimanna um veiðar á villtum fuglum en gæsaveiðitímabilið hefst síðar í mánuðinum.
Fólk sem finnur dauða eða veika fugla er hvatt til að láta Matvælastofnun vita í gegnum vefinn mast.is. „Við erum afar þakklát fyrir ábendingar,“ segir Brigitte.
Almennt gildir reglan um að snerta fuglinn ekki. Ef ákveðið er að taka ekki sýni er hægt að koma fuglinum í plastpoka, án beinnar snertingar og koma honum í sorp.