Hafa áhyggjur af fjármögnun Fjarðarheiðarganga
„Ég hef verulegar áhyggjur af fjármögnun í tengslum við Fjarðarheiðargöng og ég biðla til þess fólks sem hér ráða ríkjum í þessu landi að ekki verði nein töf á útboði sem á að eiga sér stað um þessar mundir en það á að hefjast handa á næsta ári,“ sagði Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans í sveitarstjórn Múlaþings.
Hildur kom inn á þetta við umræðu um aðalskipulagsbreytingar vegna Fjarðarheiðarganga á síðasta sveitarstjórnarfundi en þar biðlaði hún til ríkisstjórnarinnar að standa við þau fyrirheit og áætlanir sem gefnar hafa verið út vegna gangnagerðarinnar.
Undir orð hennar á fundinum tók Þröstur Jónsson úr Miðflokki sem sagðist einnig deila sömu áhyggjum af hugsanlegri seinkun. „Ég deili þeim áhyggjum því það er ekki bara verið að skera niður heldur er verðbólga í landinu, það er verið að kýla upp stýrivexti til að sporna gegn þenslu og mér þykir ekki ólíklegt að ríkisvaldið sé ekki mjög viljugt til að fara í hátt í 50 milljarða króna fjárfestingu á sama tíma. Ég hugsa að það sé ekki vinsælt upp í Seðlabanka,“
Vilhjálmur Jónsson, úr Framsóknarflokki, taldi minni ástæðu til að hafa áhyggjur af niðurskurði með tilheyrandi töfum á framkvæmdum. „Ég veit ekki hvað þetta á að vera mikið áhyggjuefni því við erum með samgönguáætlunina og vegna þess hve fjármögnun er seig í þessu. Verkið stendur yfir miðað við áætlun í sjö ár þannig að það er ekki eins og það sé verið að fjármagna strax einhverja tugmilljarða. Ef þið horfið á samgönguáætlunina þá eru þetta vissulega miklir fjármunir, og auðvitað höfum við alltaf og þá sérstaklega Seyðfirðingarnir, áhyggjur af því að það verði eitthvað sem að tefur þetta. En við þurfum að halda svolítið balans og halda þessu samtali áfram við stjórnvöld um að það verði ekki hvikað frá þessu. Þetta er orðin svo löng bið eftir að fá þessar brýnu framkvæmdir en það sem vinnur með okkur í þessu er langur framkvæmdatími og framkvæmdakostnaður er ekki að hraukast mjög mikið upp á fyrstu stigum framkvæmdanna.“
Stjórnvöld hafa tilkynnt um niðurskurð á samgönguframkvæmdum í landinu sem gæti haft áhrif á gerð Fjarðarheiðarganga en sú framkvæmd á að hefjast á næsta ári.