Hálslón komið á yfirfall
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. sep 2022 08:03 • Uppfært 06. sep 2022 08:06
Hálslón, aðaluppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar, er orðið fullt og byrjaði að renna um yfirfall í gær, heldur síðar en undanfarin ár.
Árin 2018 og 19 var yfirfallið komið á upp úr verslunarmannahelgi en síðustu tvö ár í kringum 20 ágúst. Sé þó horft til áætlaðs meðaltals er þetta örfáum dögum fyrr heldur en búist er við.
Yfirfallið er þegar yfirborð lónsins er komið í 625 metra hæð yfir sjávarmál. Rennur vatnaði þá framhjá stíflunni niður rennu þar sem það steypist ofan í Hafrahvammagljúfur og myndar fossinn Hverfanda.
Við það kemst jökulvatn aftur í Jökulsá á Dal og breytist þá meðal annars ásýnd Stuðlagils verulega auk þess sem veiðisumrinu í ánni lýkur. Áfram er þó veiði í hliðarám.
Samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga hefur gengið vel í ánni í sumar. Fyrir viku voru komnir á land 740 laxar samanborið við 540 í fyrra.
Mynd: Landsvirkjun