Hátt í þúsund manns nutu Flugs og fáka á Egilsstaðaflugvelli
„Ég held að það sé óhætt að segja að þetta hafi gengið eins vel og hægt var að hugsa sér og við aðstandendur í skýjunum með frábæra aðsókn,“ segir Þura Garðarsdóttir, forsprakki hátíðarinnar Flugs og fáka sem fram fór á Egilsstaðaflugvelli í dag.
Þetta var fyrsta flugsýningin á Egilsstöðum í heil 30 ár og miðað við frábæra aðsókn var sannarlega kominn tími til. Talið er að vart færri en eitt þúsund gestir hafi kynnt sér hinar ýmsu flug- og bílfáka þennan daginn fyrir utan að njóta frábærra loftfimleika ýmissa þeirra sem þátt tóku. Kom fólk alls staðar að af Austurlandi og nokkuð var um að erlendir ferðamenn nytu sýningarinnar líka. Fyrir utan flugfáka mátti einnig sjá ýmsa forvitnilegra fornbíla auk annarra tryllitækja á fjórum hjólum. Margar vélanna mátti skoða í þaula og smáfólkinu leiddist ekkert að vitna flota slökkviliðsins svo fátt sé nefnt sem var til sýnis.
„Ég óð beint í þetta án þess að gera mér einhverjar sérstakar væntingar en þessi fjöldi og hvað allt gekk upp sem áætlað var er ekkert minna en frábært,“ segir Þura en undirbúningur fyrir slíka hátíð hefur staðið lengi yfir. Sjá mátti allt frá heimatilbúnum fisvéla að kafbátaleitarvél frá bandaríska flotanum og nánast allt þar á milli. Allnokkrir listflugmenn voru í essinu sínu og vöktu bæði spennu og kátínu fyrir unga sem aldna.
Þura segir daginn hafa verið langan fyrir sig en hún sé afar ánægð með hvað gestir hafi skemmt sér vel og sýnt slíkri sýningu áhuga. „Það er að mínu mati rík ástæða til að endurtaka þennan leik því áhuginn er greinilega til staðar. Hvað svo verður með það kemur í ljós en persónulega finnst mér svona hátíð bara gott krydd í austfirska menningu.“
Ein fjölda véla sem léku listir sínar fyrir gesti Flugs og fáka í dag. Mynd AE