Skip to main content

Hefðbundin byrjun hreindýraveiða

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. júl 2022 12:09Uppfært 21. júl 2022 12:10

Búið er að veiða 31 tarf síðan hreindýraveiðitímabilið hófst síðasta föstudag. Sérfræðingur segir upphaf tímabilsins hefðbundið.


„Þetta hefur gengið þokkalega, ef frá er talinn einn þokudagur. Mér skilst að tarfarnir séu vænir, það eru nokkrir 100 kg komnir í hús. Það er góð þyngd á þessum tíma,“ segir Jóhann G. Gunnarsson, sérfræðingur hreindýraveiða hjá Umhverfisstofnun.

Tímabilið hófst þann 15. júlí. Fram til 1. ágúst er aðeins heimilt að veiða tarfa. Jóhann segir algengt að veiddir séu 50 tarfar í júlí, sem gæti enn tekist.

Við samanburð verður þó að huga að því að kvótinn í ár er sá minnsti í áratug, 1021 dýr alls eða 546 kýr og 475 tarfar. Árin 2019 og 2020 var kvótinn um 1450 dýr.

Jóhann segir veiðarnar dreifast nokkuð yfir svæðið, nema að ekkert hafi verið veitt á svæðum 5 og 8, sem í grófum dráttum eru frá Norðfirði til Reyðarfjarðar annars vegar, hins vegar frá Lóni til Hornafjarðar. Mest hefur verið veitt á svæðum 1, norðan Jökulsár á Dal og 7, gamla Djúpavogshreppi enda er kvótinn mestur þar.

Afnám veiðigriðlands við Snæfell, innan Vatnajökulsþjóðgarðs, eru stærstu breytingarnar á fyrirkomulagi veiðanna í ár.