Skip to main content

Helgin: Aldarafmæli Seyðisfjarðarkirkju

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. sep 2022 12:28Uppfært 23. sep 2022 16:37

Hátíðarmessa verður í Seyðisfjarðarkirkju á sunnudag í tilefni þess að kirkjan er 100 ára í ár. Á Héraði heldur Ormsteiti áfram og víðar um fjórðunginn eru fjölbreyttir viðburðir um helgina.


Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar og lýsir blessun við messuna sem hefst klukkan 14:00. Allir prestar Egilsstaðaprestakalls þjóna fyrir altari og einleikarar og kórar flytja tónlist. Afmæliskaffi verður í Herðubreið eftir messuna.

Á Héraði heldur Ormsteiti áfram. Í kvöld verður gleði í Fellum og á morgun uppskeruhátíð í Vallanesi og dansleikur með Herra Hnetusmjör í Valaskjálf um kvöldið. Þá stendur yfir markaður í gamla Blómabæ.

Á Vopnafirði verður lokahóf Einherja annað kvöld en kvennalið félagsins spilar síðasta leik sumars á Austurlandi þegar ÍH kemur í heimsókn.

Í Neskaupstað verður tónlistarhátíðin Austur í rassgati í Egilsbúð á laugardagskvöld. Fjórar austfirskar hljómsveitir koma þar fram.

Á sunnudag verður Cittaslow-dagurinn haldinn á Djúpavogi. Einstaklingar, félög og fyrirtæki kynna þar starfsemi sína í og við Löngubúð og Faktorshúsið eftir hádegi.

Í húsi Krabbameinsfélags Austfjarða á Reyðarfirði verður fyrirlestur um BRCA og önnur gen sem valdið geta krabbameini klukkan 13:00 á morgun. Ráðgjöf verður í boði eftir fyrirlestrana auk þess sem ljósmyndasýning opnar þar.

Þorgrímur Þráinsson verður með fyrirlesturinn „Litlir hlutir skapa stóra sigra“ í félagsheimilinu Skrúði á Fáskrúðsfirði klukkan 17:00 á sunnudag. Fyrirlesturinn er hluti af Íþróttaviku Evrópu í Fjarðabyggð.