Helgin: Haustroði á Seyðisfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. sep 2022 12:34 • Uppfært 30. sep 2022 12:34
Haustroði, árleg markaðs- og uppskeruhátíð Seyðfirðinga, verður haldin um helgina. Blaktímabilið hefst og fjöldi viðburða eru að Skriðuklaustri sem víðar um fjórðunginn.
Miðpunktur haustroða er í Herðubreið á morgun þar sem ríkir matar- og markaðsstemming. Í boði verður kompudót og fatnaður frá smekklegum íbúum og matur og handverk frá hæfileikafólki. Úrslit í sultukeppninni verða síðan kynnt klukkan 15:30.
Ýmislegt fleira verður í gangi tengt Haustroðanum. Ra Tack opnar listsýningu í Herðubreið auk þess sem sýningar Rikke Luther og Bernd Koberling í Skaftfelli verða opnar. Söngvamyndin Abbababb verður sýnd í Herðubíói en um kvöldið er barsvar á Öldunni.
Hátíðin hefst reyndar í kvöld þegar Saga Garðarsdóttir og Snorri Helgason troða upp í Herðubreið. Þau standa fyrir barnaballi í Valhöll á Eskifirði á morgun og troða aftur upp þar fyrir fullorðna um kvöldið.
Á Eskifirði opnar einnig eftir hádegið á morgun ný verslun, Hólagull. Hún er fataloppa þar sem fólk kemur og leigir sér pláss með varning sinn.
Að Skriðuklaustri í Fljótsdal verður lomberkvöld í kvöld en spilamennskan hefur verið lítil síðustu vetur vegna Covid-faraldursins. Á morgun opnar þar sýningin Fögur fortíð í Fljótsdal með ljósmyndum Örnu Silju Jóhannsdóttur af fornum mannvistarleifum, einkum hleðslum í dalnum.
Á sunnudag mun Guðrún Frímannsdóttir, fyrrum félagsmálastjóri Fljótsdalshéraðs, kynna þar bók sína Elspa – saga konu. Guðrún Frímannsdóttir kynnir bókina, Elspa - saga konu, sem kom út síðsumars hjá Sögum útgáfu. Í bókinni rekur Elspa Sigríður Salberg Olsen harmsögulega ævi sína og upprisu til nýs lífs á síðustu árum. Hún fæddist á Akureyri skömmu fyrir miðja síðustu öld en fékk bágborið veganesti út í lífið og hefur mætt margvíslegum raunum og mótlæti á lífsleiðinni.
Þá verður í félagsheimilinu Végarði annað kvöld kynning á þrívíddarprentun undir handleiðslu Jónasar Braga Hallgrímssonar, byggingafræðings.
Í húsakynnum Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað hefst Tæknidagur fjölskyldunnar á hádegi á morgun. Dagurinn er haldinn í áttunda sinn og er sem fyrr tileinkaður tækni, vísindum, sköpun og þróun á Austurlandi og miðast dagskráin við alla aldurshópa. Guðni Th. Jóhannesson er heiðursgestur dagsins.
Þróttur hefur keppni í úrvalsdeild kvenna í blaki í kvöld. Liðið fer norður til Húsavíkur og leikur gegn Völsungi.
Frá markaðsdegi á Haustroða. Mynd: Múlaþing