Helgin: Tónlistarfólk á ferð um Austfirði

Tónlistarmennirnir Svavar Knútur og Teitur Magnússon gera víðreist um Austurland um helgina auk þess sem hljómsveitin Brek er á ferðinni. Á Reyðarfirði verður hinn árlegi hernámsdagur á morgun.

Brek hefur síðustu daga spilað á nokkrum stöðum eystra. Í kvöld er röðin kom að Borgarfirði, Beituskúrnum í Neskaupstað annað kvöld og Tehúsinu á Egilsstöðum á sunnudag.

Á síðastnefnda staðnum er tónlistarhátíðin Teboð eða „Partea“ í gangi um helgina. Auk tónleika eru djammsession alla daga milli 15-19. Teitur Magnússon hefur hátíðina í kvöld en hann heldur síðan niður á Borgarfjörð annað kvöld.

Svavar Knútur spilar á Beljanda á Breiðdalsvík í kvöld og verður með fjölskyldutónleika þar á morgun klukkan 14:00 áður en hann færir sig upp í Egilsstaði.

Ljósmyndarinn Kormákur Máni Hafsteinsson, eða KOX, opnar sýninguna „Fjórðungur“ á Skriðuklaustri á morgun. Þar eru myndir teknar vítt og breytt um Austurland á filmu. Í Vök baths verður sumarnæturopnun frá tíu í fyrramálið til klukkan 22:00 á sunnudag.

Hernámsdagurinn verður haldinn á Reyðarfirði á morgun. Frítt verður inn á Stríðsárasafnið frá klukkan 13:00 en af öðrum uppákomum má nefna fjölskyldugöngu, sögustund með sagnfræðingi um hernámið samhliða því sem tertur og fiskur með frönskum verða í boði. Um kvöldið mæta þeir Baldur Ragnarsson og Flosi Þorgeirsson, umsjónarmenn hlaðvarpsins Draugar fortíðar og fjalla um seinni heimsstyrjöldina á sinn einstaka hátt. Þeir beina sjónum sínum sérstaklega að Austurlandi.

Útimessa verður í Selskógi við Egilsstaði klukkan 10:30 á sunnudagsmorgun. Þetta verður síðasta guðsþjónusta Torvaldar Gjerde en hann hefur verið organisti við Egilsstaðakirkju í tuttugu ár. Hann mun leika á harmonikku undir almennum söng við athöfnina auk þess sem bæði núverandi og fyrrverandi prestar í prestakallinu þjóna. Messan verður færð inn í kirkjuna ef ekki viðrar til útimessu.

Knattspyrnuhelgin hefst með tveimur leikjum í fjórðu deild í kvöld. Einherji og Spyrnir mætast á Vopnafirði en BN og Spyrnir á Eskifirði. Á morgun tekur Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir á móti HK í Lengjudeild kvenna í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 14:00. Á sama tíma hefst leikur Hattar/Hugins við Njarðvík í annarri deild karla. KFA spilar í Ólafsvík gegn Víkingi en í annarri deild kvenna fer Einherji til fundar við Fram í Reykjavík. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.