Héraðsskjalasafnið leitar að lausn á ráðgátu

Héraðsskjalasafn Austfirðinga hefur fest kaup á gamalli ljósmynd sem tekin var á Seyðisfirði árunum milli 1887 og 1907. Tilurð myndarinnar, hver tók hana og hvenær og hvers vegna er enn sem komið er nokkur ráðgáta.

Þetta kemur fram á Facebook síðu Stefáns Boga Sveinssonar forstöðumanns Héraðsskjalasafnsins. Þar segir að fyrir nokkru síðan barst safninu ábending um að til sölu væri gegnum e-bay, ljósmynd frá Seyðisfirði sem í fljótu bragði væri ekki að finna á ljósmyndasöfnum hér á landi. Eftir að hafa skoðað málið var ákveðið að festa kaup á henni, en seljandinn sérhæfir sig í sölu gamalla ljósmynda.

„Við ákváðum að kaupa þessa mynd enda var hún fáanleg á góðu verði það er nokkrir þúsund kallar. Hinsvegar er uppruni myndarinnar nokkuð á huldu, það er hver tók hana og í hvaða tilgangi.“segir Stefán Bogi í samtali við Austurfrétt.

Stefán segir að hugsanlega hafi myndin verið tekin í sérstakri ferð til Íslands eða jafnvel Grænlands með stoppi á Íslandi.

„Við vitum þetta ekki núna en myndin er gott augnablik í sögu Austurlands á þessum tíma,“ segir Stefán

Tilheyrði bandarísku safni

Myndin sýnir hrossahóp með reiðtygjum við hús á Seyðisfirði sem reist var árið 1887 undir starfsemi Pöntunarfélags Fljótsdalshéraðs á svonefndum Svendsengrunni við Hafnargötu, milli Þórshamars og Skipasmíðastöðvarinnar,“ segir Stefán á Facebook.

„Húsið stóð þar til ársins 1907 að það var flutt og breytt allmikið. Það stendur nú við Hafnargötu 10 og er jafnan kallað Múli. Frá þessu segir í Húsasögu Seyðisfjarðar.

„Myndin er lituð og á glerplötu, þeirrar gerðar sem á ensku nefnist „lantern slides“. Þetta voru nokkurskonar forverar síðari tíma slides-mynda og var varpað á sýningartjald. Á myndinni kemur fram að hún tilheyri American Museum of Natural History en safnið lét útbúa myndir af þessu tagi til að lána út í skóla sem kennsluefni en einnig fyrir opinbera fyrirlestra sem haldnir voru í safninu og voru geysivinsælir á tímabili.“

Stefán Bogi hvetur þá sem hafa einhverjar upplýsingar um myndina að hafa samband.

Mynd: Facebook

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.