Hífandi rok hjá Norður og niður en allt á áætlun samt
„Það er búið að vera alveg hífandi rok núna í tvo daga eða svo og við erum eiginlega að kasta mæðinni og ná okkur í orku núna til að halda áfram förinni,“ segir Arnfríður Hafþórsdóttir í hjólahópnum Norður og niður frá Fáskrúðsfirði.
Arnfríður ásamt þeim Óskari Þór Guðmundssyni og Búbbi Bjarni Bjarnason reynir nú að fara hjólandi þvert yfir landið frá nyrsta odda, Rifstanga, til þess syðsta, Kötlutanga, beint yfir hálendið. Hópurinn, sem einnig telur góða aðstoðarmenn sem hópnum fylgja, er nú staddur í Nýjadal á Sprengisandi og bíður þess að veðrinu sloti.
Hvíldin þar hefur þó ekki sett strik í áætlun hjólagarpanna segir Arnfríður en túrinn á að taka alls tíu daga áður en yfir lýkur.
„Reyndar ekki því áður en við komum hingað í Nýjadal þá náðu strákarnir tveimur dögum þar sem farið var helmingi lengra en til stóð. Við miðum við þetta 50 kílómetra á dag en þessa daga náðu þeir rúmlega hundrað kílómetra og þess vegna erum við eiginlega á áætlun enn sem komið er. Núna er vindurinn bara svo mikill beint á móti að við færum ekki langt yfir ef við reyndum.“
Flest hefur gengið að óskum í ferðalaginu en Arnfríður sjálf hefur þurft að halda aftur að sér að hluta sökum hnémeiðsla. Hún segist þó bjartsýn á að geta haldið af stað aftur með strákunum á morgun en spár gera ráð fyrir að það lægi talsvert á svæðinu frá því sem verið hefur.
Tveir þriðju hjólagarpanna frá Fáskrúðsfirði á ferð fyrir tveimur dögum síðan en þá fóru þeir mun lengri vegalengd yfir úfið hraun en ráðgert var í byrjun. Sá sprettur þýðir að allt er á áætlun. Mynd Norður og niður