Höfnuðu tillögu um gjaldtöku fyrir skólamáltíðir í Fjarðabyggð
Fulltrúar Framsóknar og Fjarðalistans í fræðslunefnd Fjarðabyggðar felldu í vikunni tillögu sjálfstæðismanna að hefja á ný gjaldtöku fyrir skólamáltíðir í grunnskólum sveitarfélagsins.
Tillaga þessa efnis var borin fram af hálfu tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokks í nefndinni í vikunni en þar var lagt til að hverfa frá gjaldfrjálsum skólamáltíðum sem komið var á á síðasta kjörtímabili. Samkvæmt tillögunni yrði gjaldið 300 krónur per máltíð sem myndi tryggja að Fjarðabyggð yrði áfram með eitt lægsta gjald skólamáltíða í grunnskólum í landinu.
Sjálfstæðismenn hafa áður gagnrýnt þá ákvörðun meirihlutans að bjóða gjaldfrjálsar skólamáltíðir og vísað til þess að lítið sem ekkert svigrúm hafi verið fyrir slíku í rekstri sveitarfélagsins og sú sé enn staðan í dag.
Sitjandi meirihluti setti málið á oddinn við sveitarstjórnarkosningar 2018 og lækkaði verðskrá fyrir skólamáltíðir í áföngum frá því ári fram til síðasta hausts þegar þær urðu gjaldfrjálsar með öllu.
Tillögunni um 300 króna gjaldið var hafnað að þessu sinni og ítrekuðu bæði fulltrúar Framsóknarflokks og Fjarðalistans að gjaldfrjálsar máltíðir væru mikilvægur liður í skýrri stefnu Fjarðabyggðar um barnvænt samfélag.