Skip to main content

Höfuð Þorsteins komið í leitirnar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. okt 2022 15:16Uppfært 11. okt 2022 11:02

Höfuðið af brjóstmynd ljóðskáldsins Þorsteins Valdimarssonar, sem hvarf úr Hallormsstaðarskógi í sumar, er komin aftur í hendur Skógræktarinnar. Höfuðið fannst fyrir tilviljun í heimahúsi á Egilsstöðum.


Í frétt Skógræktarinnar segir að lögregluþjónar hafi verið staddir í heimahúsi í bænum vegna annars verkefnis þegar þeir tóku eftir höfðinu. Íbúi í húsinu sagðist hafa fundið höfuðið í runna.

Höfuðið hefur í áraraðir staðið á stuðlabergsstöpli í Trjásafninu á Hallormsstað á stað sem kallast Svefnósar. Þar bjó Þorsteinn gjarnan í tjaldi þau sumur sem hann vann í skóginum. Um miðjan ágúst hvarf höfuðið af stallinum og fannst ekki þrátt fyrir mikla leit.

Fram kemur að lögregla muni ekki aðhafast frekar í málinu nema Skógræktin leggi fram kæru. Þar segir að mestu skipti að höfuðið sé fundið og komið í örugga vörslu. Næst verði hugað að því hvernig því verði komið aftur á sinn stað, gestum skógarins til yndisauka og til minningar um Þorstein.