Skip to main content

Hreindýragarðurinn færir út kvíar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. ágú 2022 09:35Uppfært 31. ágú 2022 10:12

„Ég held ég geti fullyrt að þetta fyrsta sumar hafi meirihluti gesta verið Íslendingar en með auknum framkvæmdum og þjónustu langar okkur að höfða til erlendra ferðamanna sérstaklega næsta sumar,“ segir Fannar Magnússon, einn aðstandenda Hreindýragarðsins skammt frá Fellabæ.

Skemmst er frá að segja að garðurinn atarna, sem opnaði í sumar eftir að tveir ungir hreindýrskálfar fundust móðurlausir á hálendinu og voru fluttir á afgirt svæði í landi Vínlands í Fellum, hefur gengið framar vonum og segir Fannar að enginn skortur sé á fólki sem langar að sjá hreindýr í návígi. Flestum sem komi við þyki stund með dýrunum ekkert minna en dásamleg.

Hreindýrakálfarnir, sem eru að verða fullorðnir, eru afar gæfir eftir að hafa notið atlætis mannfólks um rúmlega eins árs skeið. Þeir heita Garpur og Mosi og eru alls ófeimnir við gesti og gangandi, svara meira að segja köllum ókunnugra og fátt þykir meira spennandi meðal gesta en að klappa þeim.

Fannar segir að nú sé vinna hafin við að bæta aðstöðu bæði dýranna sjálfra og gesta fyrir næsta sumarið. „Við erum að koma upp klósettaðstöðu og stækka bílaplan svo fleiri komist að. Aðgengi að dýragerðinu verður bætt til muna sem og göngustígar í kring. Okkur langar að gera þetta vel og auðvitað á að vera svona hreindýragarður á Austurlandi þar sem hreindýrin öll dvelja.“

Fannar viðurkennir fúslega að draumurinn sé að fá fleiri dýr í garðinn og þá sérstaklega hreindýrskú þar sem tarfarnir séu að nálgast þann aldur að vilja návígi við kvígur. „Við höfum verið að skoða þann möguleika þó ekkert sé fast í hendi. Það væri vissulega gaman fyrir Garp og Mosa að fá eina kvígu til samlætis. Við vitum af því að Húsdýragarðurinn í Reykjavík hefur fengið hreindýr reglulega og það má spyrja hvort við hér fyrir austan eigum ekki að fá sömu meðferð hjá yfirvöldunum.“

Þó tæknilega sé búið að loka garðinum þetta árið er öllum frjálst að koma og berja hreindýrin augum endurgjaldslaust. „Það er í góðu lagi. Gestir þurfa bara að bera virðingu fyrir dýrunum, helst ekki klappa þeim á hornin og ekki gefa þeim neitt.“