Hreyfingar sem ekki gefa efni til stóraðgerða
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. nóv 2022 11:38 • Uppfært 28. nóv 2022 11:40
Spáð er þurru veðri á Seyðisfirði næstu tvo dagana. Vatnsþrýstingi sem byggst hefur upp í hlíðinni hefur létt síðasta sólarhringinn.
Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar um aðstæður á Seyðisfirði. Úrkoma þar mældist 17 mm. og lítið hefur rignt frá í gærkvöldi.
Vatnhæð hefur lækkað í öllum borholum nema einni, sem virðist standa í stað. Vatnshæðin er nú álíka há og fyrir helgi en búist er við að hún lækki áfram næstu daga.
Hryggurinn utan við Búðará hefur hreyfst um 12 sm. síðan í byrjun mánaðarins. Það gefur ekki tilefni til aðgerða. Utan hryggjarins er hreyfing minni og var minni í nótt samanborið við síðustu daga.
Óvissustig er áfram í gildi á Austfjörðum og varað við vinnu eða umferð í lækjar- og skriðufarvegum á Seyðisfirði.