Skip to main content

HSA fær 140 milljónum meira á fjárlögum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. sep 2022 14:08Uppfært 13. sep 2022 14:08

Framlög til reksturs Heilbrigðisstofnunar Austurlands aukast um rúmar 140 milljónir króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2023, samanborið við það sem stofnunin fékk á fjárlögum í ár. Gert er ráð fyrir að framlög til sóknaráætlana landshlutanna verði minnkuð á næstu árum.


Þetta kemur fram við yfirferð á fjárlagafrumvarpinu, sem fer í gegnum fyrstu umræðu á Alþingi á fimmtudag.

Hvað varðar einstakar stofnanir á Austurlandi er krónutöluhækkunin mest til HSA. Framlag til almennrar sjúkrahúsþjónustu hækkar um 90 milljónir, fer úr 1,76 milljörðum í ár upp í 1,855 milljarða á næsta ári. Samkvæmt ríkisreikningi frá í fyrra var kostnaður við þennan lið 1,73 milljarðar.

Stofnunin fær einnig 50 milljónir til reksturs hjúkrunarrýna, fer úr rúmum 1,5 milljörðum upp í 1,56 milljarða. Sá kostnaður samkvæmt reikningi ársins 2021 var hins vegar 1,67 milljarðar. Þegar horft er til verðbólgu telst þessi hækkun þó vart mikil.

VA hefur bætt í

Framlag til Menntaskólans á Egilsstöðum er stöðugt um 680 milljónir til næstu þriggja ára. Það minnkar úr 685 milljónum á síðustu fjárlögum og úr 709 milljóna kostnaði árið 2021. Framlag til Verkmenntaskóla Austurlands er áfram á svipuðum slóðum og í ár, 565 milljónir en rekstur skólans kostaði 501 milljón í fyrra.

Þótt til standi að sameina embætti sýslumanns í eitt eru þau þó enn aðskilin og sýnd þannig í frumvarpinu. Sýslumanninum á Austurlandi eru áætlaðar 170 milljónir, svipað og verið hefur og heildarkostnaður við sýslumannsembættin um 3,5 milljarðar. Framlag til lögreglunnar á Austurlandi lækkar úr 614 í 607 milljónir en kostnaðurinn var 580 milljónir í fyrra.

Dregið saman til náttúrustofa og byggðaáætlunar

Náttúrustofurnar eru í einum hnapp. Framlög til þeirra minnka úr 229 milljónum í ár niður í 191 milljón á næsta ári. Útgjöld Skógræktarinnar eru stöðug, um 1,7 milljarður. Heldur er bætt í til Vatnajökulsþjóðgarðs, heildarkostnaður við hann er 1,4 milljarðar samkvæmt frumvarpinu samanborið við rétt rúman milljarð í ár. Hafa ber í huga að kostnaðurinn í fyrra var 1,37 milljarðar.

Útgjöld til byggðamála, sem skiptast milli sóknaráætlana landshluta og byggðaáætlunar, minnka smám saman úr 1,5 milljarði í ár niður í 1,25 milljarða árið 2025. Strax er gert ráð fyrir 120 milljónum minna í sóknaráætlanirnar en í ár og 48 milljónum í byggðaáætlunina.

Nýframkvæmdir í samgöngumálum eru meðal stærstu einstöku liða frumvarpsins, 29 milljarðar. Þó er gert ráð fyrir að kostnaður við framkvæmdir í vegagerðinu minnki úr 26,35 milljörðum í ár niður í 20,8 milljarða árið 2021. Kostnaður við einstakar framkvæmdir er ekki sundurgreindur í frumvarpinu. Reiknað er með 350 milljónum til viðbótar í Loftbrúna.