HSA fær sex milljónir fyrir nýrri öndunarvél
Eftir sérstaka úttekt af hálfu heilbrigðisráðuneytisins á tækjaþörfum sjúkrahúsa á landsbyggðinni hefur verið ákveðið að Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað fái sex milljónir króna til kaupa á nýju öndunartæki.
Þetta fær Austurfrétt staðfest hjá ráðuneytinu en þar á bæ hefur sérstakt viðbragðsteymi um bráðaþjónustu á landsbyggðinni verið að störfum um tíma og nýverið lauk annarri úttekt þeirra af þremur alls.
Í þessari annarri lotu var litið sérstaklega til ástands tækjabúnaðar á bráðadeildum sjúkrahúsa og við úttekt hér austanlands kom í ljós að sjúkrahúsið í Neskaupstað var öllum nauðsynlegum tækjum búið fyrir bráðaþjónustu ef frá er talin svokölluð ytri-öndunarvél (BIPAP.) Fjármagn hefur nú verið veitt til kaupa á slíku tæki sem er í viðbót við 80 milljóna króna framlag í haust til kaupa á nýju sneiðmyndatæki fyrir sjúkrahúsið.
Teymi heilbrigðisráðuneytisins verður áfram að störfum en í þriðju og síðustu lotu verður gerð sambærileg tækjaúttekt meðal heilsugæslustöðva.