Skip to main content

Húsið á Fáskrúðsfirði komið aftur á leigu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. sep 2022 10:59Uppfært 12. sep 2022 11:01

Íbúð á vegum opinbera leigufélagsins Bríetar við Fáskrúðsfirði, sem auglýst var til leigu í sumar, er komin aftur í leigu á töluvert lægra verði en áður.


Athygli vakti í júlí þegar íbúðin, sem er 150,3 fermetrar sjálf auk 24 fm. bílskúr, var auglýst til leigu á 352.000 kr. á mánuði eða um 36% yfir meðalleiguverði á svæðinu. Í fyrstu var því svarað til að hafa þyrfti fyrir byggingakostnaði en eftir nokkra gagnrýni var auglýsingin tekin út af vef Bríetar.

Nú er íbúðin komin þangað inn og er leiguverðið nú 279.510 kr. á mánuði. Það þýðir að leiguverðið er 1.640 kr/fm, sem er um 100 krónum undir meðalleiguverði á Fáskrúðsfiðri, miðað við lauslega athugun Austurfréttar.

Leigufjárhæð er tengd vísitölu neysluverðs. Rafmagn og hiti er ekki innifalið í leigu. Leigusamningur getur verið ótímabundinn eða tímabundinn til eins eða tveggja ára í senn. Leggja þarf fram tryggingu sem nemur tveggja mánaða leigu fyrirfram.

Íbúðin er fjögurra herbergja í nýbyggðu parhúsi við götuna Stekkholt. Ekki er hægt að skoða eignina annars staðar en á vef Bríetar.

Bríet er að fullu í eigu íslenska ríkisins. Félagið er óhagnaðardrifið, komið á til að örva húsnæðismarkað um allt land.

Mynd: Bríet