Hvalirnir losnuðu af strandstað

Grindhvalir sem strönduðu við Meleyri við Breiðdalsvík í gærkvöldi losnuðu af strandstað með aðstoð björgunarsveitarfólks um klukkan ellefu í gærkvöldi. Dýralæknir segir miklu skipta að varlega sé farið að dýrunum eigi þau að halda lífi.

Tilkynning barst um að tveir hvalir væri strand um 20 metra út af brúnni yfir Breiðdalsá við Meleyri um klukkan sex í gærkvöldi. Um var að ræða grindhvali, trúlega kýr og kálf, þar sem annað dýrið var töluvert stærra en hitt.

Þóra J. Jónasdóttir sérgreinalæknir villtra dýra hjá Matvælastofnun, segir að byrjað hafið verið að fjara undan stærra dýrinu og það setið fast. Viðbragðsteymi hvala í neyð er sett saman úr fulltrúum frá stofnuninni, lögreglu, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslunni, sveitarfélaginu Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og sérfræðingum Háskóla Íslands.

Á vettvangi í landi, eins og í gærkvöldi, eru það lögregla sem stýrir aðgerðum, björgunarsveitarfólk oftast annast þær en sérfræðingar ráðleggja um hvað skuli gert og hvernig. Í gærkvöldi fóru félagar úr Einingu á Breiðdalsvík og Báru á Djúpavogu út í þurrgöllum með tvo bátaa til stuðnings. Fólkið gekk varlega að dýrunum dýrunum og vísaði þeim leiðina til sjávar. Björgunin tókst sem sagt giftusamlega.

„Það þurfti að hafa snarar hendur því við vissum að það væri að fjara úti. Það voru allir mjög samtaka í aðstoðinni og björgunarsveitin kom hratt á vettvang,“ segir Þóra.

Ekki stressa dýrið

Þóra segir að aldrei megi binda kaðal um sporð hvala til að draga þá út, slíkt skaðað dýrið alvarlega og jafnvel drekki því. Yfirleitt fari björgunarfólk í þurrgalla og viðeigandi öryggisbúnað áður en það nálgast dýrin varlega. Slíkt sé mikilvægt til að styggja ekki dýrin en hættulegt getur verið ef þau slá sporðinum í fólk. Sé rétt að farið leyfi hvalirnir mannfólkinu oft að hjálpa sér.

Þá er hægt að ýta við dýrunum, jugga þeim eða jafnvel snúa. Stundum er reynt að nota báta til að búa til öldur og koma þeim á flot. Dýrin geta verið mjög ringluð eftir strand og synda stundum aftur í land. Þess vegna þarf björgunarfólk stundum að synda með þeim út.

Séu dýrin alveg strönduð þarf að bíða næsta flóðs, í allt að tólf tíma. Á meðan þarf að halda dýrunum rökum. Slíkt var gert árið 2019 þegar 50 grindhvalir strönduðu á Reykjanesi. Meirihluta þeirra tókst að koma til sjávar á næsta flóði.

Ef vegfarendur koma að strönduðum hvölum skal hringt í Neyðarlínuna í síma 112 eða lögreglu sem tilkynnir viðbragðsteymi. Almenningur skal ekki nálgast dýrið, slíkt getur stressað það sem getur dregið úr lífslíkunum. Einnig getur borist smit í mannfólk með útblæstri hvalanna. Í lagi er að fylgjast með úr fjarlægð en forðast hávaða eða læti í kringum dýrin. 

Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.