Hvatt til hreinsunarátaks á Seyðisfirði
„Við höfum nú eiginlega bara fengið hrós frá ferðamönnunum hér fyrir hversu snyrtilegt er í bænum en það má alltaf gera betur og best væri að bærinn tæki frumkvæði í þessu,“ segir Sveinn Ágúst Þórsson, bæjarverkstjóri á Seyðisfirði.
Heimastjórn bæjarins hefur hug á að fara í sérstakt hreinsunarátak í bænum og hefur mælst til þess að sveitarstjórn Múlaþings taki vel í og komi því á koppinn. Þar ekki síst litið til þess mikla ferðamannafjölda sem heimsækir bæinn með Norrænu og fjölda skemmtiferðaskipa en stór hluti þeirra farþega eyða stund á röltinu um í bænum. Bara í gær komu jafn margir í land frá skemmtiferðaskipum í firðinum og búa í öllu Múlaþingi.
Sveinn segir að starfsmenn séu alltaf að við að snyrta enda vilji flestir eðlilega hafa hreint og fínt í kringum sig.
„Við höfum mikið verið að hreinsa veggjakrot og límmiða af veggjum en það hefur verið nokkur faraldur undanfarið. Að hluta til tengist það LungA en svo er töluvert um að ferðamenn séu að líma alls kyns miða á tunnur. Það er eitthvað um númerslausar bifreiðar hér og þar sem lítil prýði er að og gott væri að byrja þar til dæmis.“
Mörgum þykir Seyðisfjarðarbær einn af þeim fegurstu í landinu en alltaf má gott bæta.