Skip to main content

Hvetja til inniveru í dag

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. okt 2022 13:35Uppfært 09. okt 2022 13:37

Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi hvetur íbúa fjórðungsins til inniveru í dag. Byrjað er að loka fjallvegum þar sem færð er tekin að spillast.


Búið er að loka Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Breiðdalsheiði og Öxi auk þess sem til stendur að loka milli Hafnar og Djúpavogs. Þá er viðbúið að aðrir fjallvegir geti lokast með skömmum fyrirvara

Aðgerðastjórn bendir á að spár um afleitt veður í fjórðungnum séu að ganga eftir. Vegna hvass vinds og vindstrengja á fjörðunum í kvöld og til fyrramáls mun ekkert ferðaveður verða þar á þeim tíma frekar en annarsstaðar í fjórðungnum, en gert er ráð fyrir 35 til 40 m á sek í meðalvindi og 45 til 50 metrar í hviðum, sérstaklega sunnantil. Hægara verður á Austfjörðum frameftir degi en hvessir þar síðdegis og verður mjög hvasst í nótt og fram á morgun.

Aðgerðastjórn hvetur því til inniveru í dag og fram til fyrramáls. Ef enn á eftir að huga að lausamunum, ruslatunnum, til að mynda, er rétt að koma þeim í skjól hið fyrsta.

Þar sem rafmagn kann að fara af meðan ofsinn gengur yfir eru viðkvæmar stofnanir og fyrirtæki beðnar um að huga að viðbrögðum vegna þess. Íbúar og hvattir til að hafa kerti og/eða vasaljós til reiðu. Fari rafmagn af mun það vonandi ekki standa lengi.

„Gætum að okkur, verum heima og leggjum þannig okkar af mörkum til að aðrir geti verið það einnig.“

Tilkynningar verða sendar á þessum miðli frá aðgerðastjórn eftir því sem veðrinu vindur fram.