Hviður upp á 26 metra á Hvalnesi en rólegra annars staðar
Vindhraði mælist nú 26 metrar á sekúndu (6 gömul vindstig) að Hvalnesi en þar er mesti vindhraðinn á Austurlandi þegar þegar er skrifað samkvæmt mælum Veðurstofu Íslands.
Bálhvasst er víðast hvar í fjórðungnum. Vindhraði er kringum 24 m/s að Brú í Jökuldal, 25 metra vindhraði mælist að Grímsstöðum á Fjöllum og á Eyjabökkum nær vindurinn 26 m/s eins og í Hvalnesi. Í þéttbýli austanlands er vindur hvassastur í Reyðarfirði, 20 m/s á sekúndu en litlu minni vindhraði í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Ekkert hefur enn frést af tjóni frá neinum stað að svo stöddu en allar björgunarsveitir austanlands auk lögreglu eru á vaktinni.
Vegagerðin hefur auk þess að loka öllum helstu fjallvegum austanlands stoppað alla umferð á þjóðvegi 1 alla leið frá Vík í Mýrdal til Djúpavogs og verður sá hluti þjóðvegarins lokaður fram á morgundaginn. Eins og komið hefur fram var veginum yfir Fjarðarheiði, Fagradal , Öxi og Breiðdalsheiði lokað fyrr í dag og það verða þeir áfram til morguns.
Ef marka má veðurspá Veðurstofu Íslands verður vindur á svipuðum nótum á Austfjörðum fram til morguns en lygna fer töluvert á Héraði og í Jökuldal og Möðrudalsöræfum fljótlega upp úr miðnætti.
Ný spá um stöðuna austanlands um klukkan tvö í nótt. Samkvæmt henni fer að draga víða úr vindi víðast hvar fljótlega upp úr miðnætti nema syðst þar sem blæs duglega áfram fram á morgun. Skjáskot Veðurstofa Íslands