Skip to main content

Hviður yfir 40 metra á sekúndu á morgun og sunnudag

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. sep 2022 18:09Uppfært 23. sep 2022 18:18

Norðvestan 20 til 28 metrar á sekúndu með staðbundnum hviðum vel yfir 40 metra á sekúndu. Fólk hvatt til að tryggja lausamuni. Ekkert ferðaveður.

Svo hljóma aðvörunarorð frá Veðurstofu Íslands fyrir Austfirði á morgun laugardag og langt fram á sunnudaginn en gul veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir landið allt næstu tvo dagana.

Þessu veldur kröpp lægð sem veldur norðan- og norðaustan hvassviðri víðast hvar en henni fylgir líklega, auk hvassviðris, slydda og eða snjókoma á Norður- og Norðausturlandi og ekkert dregur úr óveðrinu fyrr en seint á sunnudagskvöld ef marka má spár.

Staðan lítillega betri fyrir svæðið sem flokkast sem Austurland að Glettingi en Austfirðina. Hvassviðri nær þar mest 23 metrum á morgun en töluverður hiti fylgir lægðinni og hitastig nær allt að sautján stigum á morgun. Hitastigið fellur skarpt á sunnudag þegar spár gera ráð fyrir hámarkshita upp að tíu stigum.