Innanlandsmarkaðurinn er Icelandair mikilvægur
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. júl 2022 12:26 • Uppfært 15. júl 2022 12:27
Stjórnendur Icelandair telja aukna dreifingu ferðafólks um landið mikilvæga fyrir þjóðarbúið til framtíðar. Þess vegna hafi félagið áform um að auka þjónustu sína í innanlandsflugi. Sameining innanlands- og millilandaflugs undir merkjum Icelandair var hluti af því.
„Innanlandsmarkaðurinn er mikilvægur, bæði fyrir fólk á landsbyggðinni sem á höfuðborgarsvæðinu en ekki síður ferðamenn.
Þess vegna ákvað stjórn félagsins árið 2019, að undangengnum greiningum, að setja enn meiri fókus á þessa starfsemi og taka hana nær millilandafluginu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair í viðtali í Austurglugga vikunnar.
Sameining innanlandsflugs og millilandaflugs undir merkjum Icelandair var skref í þá átt að fjölga erlendum ferðamönnum sem nýta innanlandsflugið. Fyrstu vísbendingar eru um að það gangi upp því ferðamönnum í innanlandsfluginu fjölgaði strax í vor. Næsta skref verður stigið með beinu flugi milli Akureyrar og Keflavíkur á næsta ári. Gangi það vel kemur vel til greina að koma upp slíku flugi til Egilsstaða líka.
Bogi Nils segir þetta mikilvæg skref því dreifing ferðafólks um landið sé lykilatriði fyrir áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustunnar um landið.
„Til að hagvöxtur verði áfram á Íslandi og góð lífskjör þarf ferðaþjónustan að vaxa og dafna. Til þess þarf ferðamönnum að fjölga og það gerist ekki nema þeir fari í auknu mæli um allt land. Árin 2018 og 19 komu hingað um tvær milljónir ferðamanna og tveir þriðju þeirra þeirra voru á suðvesturhorninu. Við horfum fram á að ferðamenn geti verið allt að þrjár milljónir árið 2030 og þá verðum við að fá þá meira um landið.“
Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.