Ísland þarf fyrst að hugsa um sjálft sig
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. sep 2022 10:41 • Uppfært 09. sep 2022 10:42
Ísland er meðal þeirra ríkja sem mest tækifæri eiga til framleiðslu og útflutnings orku til Evrópu, sem sárvantar nýja orkugjafa. Hollenskur sérfræðingur segir Íslendinga þurfa fyrst að hugsa um sjálfa sig en hagkvæmt sé að huga um leið að útflutningi.
„Fyrir tveimur árum gerðum við, að beiðni hollensku ríkisstjórnarinnar, úttekt á því hvaða land ætti möguleika á að flytja út mest vetni. Við skoðuðum möguleika á orkuframleiðslu með sól, vindi eða vatni, landrými, þörf heimamarkaðar og hvað yrði þá afgangs.
Ísland var meðal þeirra 15 landa sem komu best út og þess vegna höfðum við samband hingað,“ segir Martijn Coopman verkefnastjóri á alþjóðasviði Rotterdamhafnar í viðtali í Austurglugga vikunnar.
Hann hélt kynningu á vinnustofu sem var haldin vegna Orkugarðs Austurlands á Reyðarfirði. Orkugarðurinn er samstarfsvettvangur fyrirtækja og Fjarðabyggðar um uppbyggingu til framleiðslu á rafeldsneyti og nýtingu aukaafurða sem um leið verða til. Rotterdam-hafnir hafa veitt Fjarðabyggð ráðgjöf í verkefninu.
Höfnin í Rotterdam er risavaxin en um hana fara 13% þeirrar orku sem notuð er í Evrópusambandinu. Miklir hagsmunir eru í húfi hjá hafnaryfirvöldum að hafa tilbúna innviði til orkuskipta. Fyrirséð virðist að Holland sem Evrópa verði áfram háð innflutningi orku.
„Ísland fyrst að hugsa um sjálft sig í framleiðslu grænna orkugjafa vegna orkuskiptanna. Hins vegar getur verið hagkvæmt frá upphafi að huga samhliða að útflutningi. Minni vetnisverkefni eru til lengri tíma litið ekki jafn hagkvæm þar sem ekki næst stærðarhagkvæmni framleiðslu.
Stærri einingar, sem gætu framleitt ódýrara vetni, bæði fyrir eigin notkun og til útflutnings. Á þennan hátt gæti Ísland stutt við orkuskipti þjóða í norðvestanverðri Evrópu,“ segir Martijn.
Í glærukynningu sinni sýndu fulltrúar Rotterdamhafnar kort af álitlegum vindorkusvæðum á Austurlandi út frá Mjóeyrarhöfn, en í nágrenni hans er fyrirhugað að setja upp orkugarðinn. Möguleg framleiðsla þessara svæða gæti í heild náð um 1000 MW eða meira.
„Landsvirkjun hefur unnið góða undirbúningsvinnu. Það eru miklir möguleikar á Austurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi. Síðan bætast inn í jöfnuna innviðir og vilji samfélagsins sem gerir Austurland mjög ákjósanlegt,“ segir Martijn.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.