Jarðhitarannsóknir í Eiðaþinghá lofa góðu
Niðurstöður jarðhitarannsókna sem Hitaveita Egilsstaða og Fella (HEF) hefur framkvæmt í Eiðaþinghá frá síðasta vori gefa mun betri raun en menn þorðu að vona.
Þetta staðfestir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF, við Austurfrétt en hér er nánar tiltekið um að ræða sýni úr holum í landi Breiðavaðs og Mýness II. Á svipuðum slóðum hafa tilraunaboranir eftir heitu vatni farið fram áður en þá fannst ekki nægjanlegt vatn til að réttlæta vinnslu.
Bendir ýmislegt nú til að þarna geti vel verið nægilega heitt vatn í vinnanlegu magni að sögn Ómars Bjarka Smárasonar, jarðfræðings, sem hefur haft umsjón með rannsóknunum í sumar. Það sérstaka við hitasvæði á þessum slóðum er að það þykir fullvíst að það tengist á engan hátt jarðhitasvæðinu við Urriðavatn hinu megin Fljótsins.
Framundan eru fleiri rannsóknir og bæta skal við minnst einni hitastigulsholu til að fá frekari vissu. HEF leitar nú samninga við landeigendur vegna áframhaldandi leitar.
Landssvæðið sem um ræðir er svo til miðja vegu milli Egilsstaða og Eiða eins og sjá má á meðfylgjandi korti. Map.is/Loftmyndir ehf.