Júlí í kaldara lagi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. ágú 2022 10:08 • Uppfært 08. ágú 2022 10:08
Hitinn á Egilsstöðum í júlí var 0,4°C undir meðalhita síðustu þrjátíu ára og 0,6 gráðum undir meðalhita síðustu 20 ára. Júlí var fremur kaldur um land allt og þar sem Gagnheiði vermdi botnsætið.
Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofunnar fyrir veðurfar í júlí. Á Egilsstöðum hefur hitinn verið mældur í 68 ár og eru 30 júlímánuðir kaldari en þessi. Meðalhitinn þar í síðasta mánuði var 10,4 stig. Er það þó skárra en í júlí 2020 þegar meðalhitinn var 9,5 gráður.
Á Dalatanga var meðalhitinn 9 gráður, 0,1 stig undirmeðaltali síðasta áratugar en 0,3 yfir síðustu 30 árum og 22 í röðinni á 84 mælingarárum. Á Teigarhorni í Berufirði var meðalhitinn 9,6 gráður og álíka langt frá meðaltali síðustu ára og á Dalatanga. Þar var mánuðurinn sá 25 hlýjasti í 150 ára mælingasögu.
Þessar tölur gefa til kynna að þrátt fyrir að mánuðurinn hafi verið kaldur, samanborið við síðustu ár, þá er hann samt hlýr í sögulegu samhengi sem og allra síðustu áratugir. Mánuðurinn var þó víða kaldur, í Reykjavík var hann sá kaldasti á þessari öld.
Lægsti meðalhiti mánaðarins var á Gagnheiði, 4,4 gráður. Þar var einnig mesta frostið, -1,6° bæði þann fjórða og 30, en sem kunnugt er gránaði víða í fjöll síðarnefnda daginn.
Í þessu samhengi er þó kannski sérstakt að hæsti hiti mánaðarins mældist á Austurlandi, 23,3 stig á Fáskrúðsfirði sjöunda dag mánaðarins.
Vindur á landsvísu var jafn meðallagi áranna 1991-2020 en vestanáttir voru óvenjutíðar. Hæsti loftþrýstingur mældist 1022,9 hPa á Teigarhorni níunda dag mánaðarins.