Krefja forstjóra Icelandair um fund

Sveitarfélagið Múlaþing hefur óskað eftir því að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, mæti til fundar við fulltrúa Múlaþing í næstu viku til að ræða vandræðagang í áætlunarflugi innanlands.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem sveitarfélagið sendi frá sér í dag. Eins og Austurfrétt hefur greint frá síðustu daga hafa bilanir valdið gríðarlegum seinkunum á áætlunarflugi milli Egilsstaða og Reykjavíkur undanfarna viku.

Þannig var morgunflugið í dag tæpum þremur tímum á eftir áætlun og fyrirséð er að seinkanir verði á öðrum vélum í dag. Þrjár af þeim fimm vélum sem verið hafa í viðhaldi. Sú fjórða bætist í áætlun einhvern tíma í næstu viku en ekki er von á þeirri fimmtu fyrr en eftir tvær vikur.

Í tilkynningu Múlaþings segir að tafir og niðurfellingar á flugi séu með öllu óviðunandi því brýnt sé að samgöngur séu fyrirsjáanlegar og í föstum skorðum þar sem þær gegni mikilvægu öryggishlutverki. Óásættanlegt sé með öllu hvernig fluginu hafi verið háttað síðustu vikur og ljóst að Icelandair þurfi að endurskoða bæði hvernig hægt sé að standast áætlun og tryggja nægjanlega þjónustu til landsbyggðarinnar.

Með fundinum vonast Múlaþing til að fá svör við af hverju vandamálin hafi stafað og hvað Icelandair ætli að gera til að leysa úr þeim.

Líka áhyggjur af takmörkuðu sætaframboði

Í samtali við Austurfrétt segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, að fleira sé á dagskránni heldur en seinkanir á flugum. Framboð á flugsætum, sem virðist hafa verið afar takmarkað síðustu mánuði, sé einnig á dagskránni. Staðið hafi til að funda með Boga Nils í vor en því seinkað.

Björn segir málið brenna á íbúum auk þess sem það komi við rekstur sveitarfélagsins. Þannig geti verið erfitt að fá fagaðila austur eða koma starfsfólki suður í vinnuferðir, einkum ef fyrirvarinn er skammur.

„Við höfum orðið hressilega vör við þetta. Við ætluðum til dæmis að fá fagaðila með okkur á fundi á Borgarfirði eftir helgi en það gengur ekki því það eru engin laus sæti. Okkur finnst orðið meira um þetta en var,“ segir Björn.

„Okkur hefur fundist framboð flugsæta mjög takmarkað í vetur og nú bætist við að verið er að seinka flugi. Þess vegna viljum við fá skýr svör um hvort lausn sé í sjónmáli. Það hafa komið yfirlýsingar um að verið sé að leysa málin en þær hafa greinilega ekki gengið eftir. Þess vegna teljum við gott að taka samtalið beint.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.