Kerfill veldur áhyggjum á Fljótsdalshéraði

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs hvetur umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings eindregið til að grípa til aðgerða í því skyni að hefta útbreiðslu kerfils á svæðinu.

Ábendingar um mikla útbreiðslu kerfils á Héraði hafa borist á borð heimastjórnarinnar en kerfill er gróskumikil og dugleg en jafnframt ágeng planta sem gjarnan er mjög sýnileg meðfram vegum þó hún uni hag sínum vel nánast hvar sem er.

Ekki er lengra en fimm ár síðan að útbreiðsla kerfilsins var svo hröð og mikil í Fljótum að þar eyðilögðust fleiri jarðir vegna þess.

Á vef Náttúrustofnunar Íslands segir að: Allt bendir til að óhindruð útbreiðsla skógarkerfils um víðáttumikil gróin svæði leiði til fábreyttari gróðurs og verulegra breytinga á dýralífi, bæði smádýra og fugla. Útivistargildi svæða getur einnig rýrnað þar sem kerfillinn breiðist um sérstaklega í blómlendi og með ám og lækjum. Gömul tún sem ekki eru lengur nytjuð eyðileggjast á fáum árum og spillast sem ræktarland nái kerfillinn yfirhöndinni. Líklega þarf að endurrækta tún ef nýta á landið á nýjan leik. Rofhætta getur aukist í landi þar sem kerfill er ríkjandi vegna þess að undirgróður er þar rýr og yfirborð bert og illa varið fyrir vatnsrofi að vetrarlagi.

Jón Kr. Arnarson, garðyrkjustjóri Múlaþings, tekur heils hugar undir hvatningu heimastjórnarmanna. „Allavega reyna að hefta útbreiðslu kerfilsins með slætti en það hefur sýnt sig að það er erfitt að eyða honum.“

Kerfill vex nú víðast hvar um landið og hefur verið að færa sig upp á skaftið hér austanlands. Mynd Náttúrufræðistofa/Erling Ólafsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.