Skip to main content

Kokkurinn á Berki NK hrósar næringarnámi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. okt 2022 11:50Uppfært 26. okt 2022 11:53

Haraldur Egilsson kokkur á Berki NK er hæstánægður með næringarnámskeið sem Síldarvinnslan býður kokkum sínum og matráðum þessa vikuna.


Á vefsíðu Síldarvinnslunnar segir að fyrsta námskeiðið var haldið á mánudag í Neskaupstað undir stjórn næringarfræðingsins og Norðfirðingsins Berglindar Lilju Guðlaugsdóttur. Hún fór yfir grunnatriði í næringarfræði og ýmsar leiðir til að gera máltíðir og matarumhverfi heilsusamlegra bæði til sjós og lands.

Fram kemur að Berglind fór yfir val á hráefnum, eldunaraðferðum og skipulagi í kringum máltíðir og innkaup. Berglind er klínískur næringarfræðingur, dokstorsnemi og aðjúnkt við Háskóla Íslands og hefur mikla reynslu í slíku námskeiðahaldi.

„Þetta var frábært námskeið“, segir Haraldur Egilsson, kokkur á Berki NK í samtali á vefsíðunni. „Það er gott að fá upprifjun á næringarfræðinni og Berglind notaði mjög sniðugar aðferðir til að benda okkur á leiðir til að auka hollustuna á einfaldan hátt.

Við vorum mjög ánægð með þetta og fengum fullt af hugmyndum sem verður gaman að vinna með“, segir Haraldur.

Annað námskeið verður haldið í dag, miðvikudaginn 26. október, og eru þeir sem hafa fengið boð hvattir til að mæta. Í næstu viku verða svo netfyrirlestrar þar sem öllu starfsfólki Síldarvinnslunnar býðst fræðsla um næringu og leiðir til að bæta mataræði, að því er segir á vefsíðunni.

Mynd: Frá fyrra næringarnámskeiðinu sl. mánudag. Við borðsendann situr Berglind Lilja Guðlaugsdóttir næringarfræðingur. Lengst til vinstri standa þær Danijela Sokolov og Hólmfríður Guðjónsdóttir matráðar í frystihúsinu á Seyðisfirði. Þá eru á myndinni kokkar á Síldarvinnsluskipum, talið frá vinstri: Haraldur Egilsson, Hjörvar Moritz Sigurjónsson og Gunnar Bogason. Mynd: Smári Geirsson