Konurnar nýta sér Loftbrú mest
Konur eru töluvert duglegri að nýta sér afsláttarkjör í flugi undir heitinu Loftbrú en aðrir notendur. Kvenfólkið hefur farið 56 prósent allra ferða frá upphafi.
Þetta kemur fram í greiningu Vegagerðarinnar sem heldur utan um Loftbrúarverkefnið fyrir hönd stjórnvalda. Loftbrúin gefur, sem kunnugt, er 40% afslátt af sex flugleggjum árlega fyrir alla þá sem eiga lögheimili fjarri höfuðborgarsvæðinu.
Austurfrétt hefur áður greint frá að meirihluti þeirra 57 þúsund einstaklinga alls sem nýttu sér afsláttarkjörin á síðasta ári bjuggu á Austurlandi og flugferðirnar mestanpart notaðar til að sækja ýmis konar þjónustu sem ekki er til staðar í fjórðungnum samkvæmt könnun sem unnin var af Austurbrú.
Nýjustu tölur Vegagerðarinnar sýna að mikil aukning er í notkun á Loftbrú það sem af er þessu ári eða um 50% meiri nýting en allt árið 2021. Fjölmennasti notendahópurinn er á aldrinum 20 til 24 ára.