Skip to main content

Kranaprammi mættur til Reyðarfjarðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. ágú 2022 14:33Uppfært 18. ágú 2022 14:38

Kranapramminn Tronds Lift 8 er nú í Reyðarfjarðarhöfn. Koma prammans er hluti af undirbúningi þess að fóðurprammi, sem sökk við fiskeldisstöð utar í firðinum í stormi í janúar í fyrra, verði hífður upp um helgina.


Kranapramminn kemur frá Haugasundi í Noregi. Hann er með tvo krana sem hvor getur híft 200 tonnum svo heildarlyftigetan er 400 tonn.

Ekki veitir af því fóðurpramminn Muninn, sem hvílir á botni Reyðarfjarðar við eldissvæðið Gripalda, er um 285 tonn í sjó, eða 350 tonn með fóðri. Áætlað er að hann verði hífður upp um helgina.

Til stendur að fara með kranaprammann út að Gripalda á morgun og honum komið fyrir yfir fóðurprammanum. Þar verður hann festur með ankerum við botninn áður en aðgerðir hefjast.

Með í för verða dráttarbáturinn Tronds Lax og þjónustubáturinn FDA Finn. Köfunarþjónustan hefur skipulagt verkið í samvinnu við tryggingafélagið, Fjarðabyggðarhafnir, Umhverfisstofnun og Laxa/Fiskeldi Austfjarða, eiganda fóðurprammans.

Níu kafarar frá Köfunarþjónustunni verða á svæðinu og munu þeir búa fóðurprammann undir lyftinguna en honum verður hjálpað með belgjum. Þegar hann verður kominn í rétta stöðu verður honum lyft upp og fluttur á grynnra vatn. Þar verður fóðri dælt úr honum til urðunar í landi áður en prammanum sjálfum verður komið á þurrt.

Kranapramminn gnæfir yfir höfnina á Reyðarfirði. Í forgrunni er þjónustubáturinn FDA Finn og á bakvið hann glittir í Tronds Lax.