Krefjast þess að ríkið standi við fyrirheit um heilsársveg yfir Öxi
„Nú þegar íbúar og sveitarfélagið hafa staðið við sitt er löngu tímabært að ríkið geri hið sama.“
Svo hljómar niðurlag ályktunar sem samþykkt var á fjölsóttum íbúafundi sem fram fór á Djúpavogi í gær en þar krefjast heimamenn að staðið verði við gefin loforð í aðdraganda þess að sveitarfélagið Múlaþing varð til. Í aðdraganda sameiningar þeirra fjögurra sveitarfélaga sem að Múlaþingi standa skyldi bæta samgöngur í sveitarfélaginu og þar áhersla lögð á heilsársveg yfir Öxi til að auðvelda samgöngur í nýja sveitarfélaginu.
Blikur eru á lofti með verkefnið eins og Austurfrétt sagði frá fyrir nokkru síðan. Öll slík samvinnuverkefni í samgöngumálum eru nú í bið meðan innviða- og fjármálaráðuneytin endurskoða áætlanir ríkisins um fjárframlög til slíkra verkefna.
Upphaflega stóð til að heilsársvegur yfir Öxi færi í útboð haustið 2021. Það tafðist svo fram á yfirstandi ár en aftur tilkynnt um slíkt útboð í febrúar síðastliðnum og áttu framkvæmdir að hefjast fyrri hluta næsta árs. Ekkert hefur orðið af útboðinu enn sem komið er.
Axarvegur er mikilvæg samgöngubót hér austanlands og þar ekki síst fyrir íbúa á Djúpavogi sem oft þurfa yfir á Egilsstaði fyrir hina ýmsu þjónustu. Vegurinn er þó ófær lunga vetrar og oft lengur vegna leysinga.