Kynna íbúum breytingatillögur á aðalskipulagi vegna Fjarðarheiðarganga
Áhugasömum gefst nú kostur á að kynna sér í þaula breytingartillögur þær sem áætlað er að gera á aðalskipulagi Seyðisfjarðar annars vegar og Fljótsdalshéraðs hins vegar vegna fyrirhugaðra framkvæmda vegna Fjarðarheiðarganga.
Sérstakir opnir kynningarfundir vegna þessa verða haldnir á næstunni en á fundunum verða bæði aðilar frá Múlaþingi og Vegagerðinni til að varpa ljósi á þær breytingar sem fyrirhugaðar eru og svara fyrirspurnum.
Seyðisfjarðarmegin breytist aðalskipulag vegna staðsetningar gangamunnans en þar koma einnig til breytingar vegna færslu golfvallarins auk skilgreininga á nýjum göngu-, hjóla- og reiðleiðum. Héraðsmegin snúa breytingar helst að staðsetningu gangamunnans auk legu stofnvega út frá honum.
Vinnslutillögurnar liggja nú þegar fyrir og geta íbúar nálgast þær á skrifstofum sveitarfélagsins á báðum þessum stöðum en jafnframt er hægt að skoða þær hér á netinu.
Opnu fundirnir verða annars vegar í Samfélagssmiðjunni að Miðvangi á Egilsstöðum kl. 16 þann 22. ágúst og á sama tíma degi síðar í Herðubreið á Seyðisfirði.
Tölvumynd af gangamunnanum Seyðisfjarðarmegin auk vegtenginga. Nokkrar breytingar þarf að gera á aðalskipulagi beggja vegna Fjarðarheiðar vegna jarðgangagerðar sem framundan er. Mynd Vegagerðin