Skip to main content

Kynntu sér hagi flóttafólksins frá Úkraínu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. nóv 2022 12:55Uppfært 21. nóv 2022 13:54

Nokkur fjöldi fólks gerði sér ferð í hús Rauða kross Íslands á Egilsstöðum um helgina en þá bauðst gestum að heilsa upp á fyrsta flóttamannahópinn sem hingað kom frá Úkraínu.

Hópurinn, fimmtán karlmenn og ein kona, komu hingað austur fyrir einum og hálfum mánuði síðan en hópurinn dvelur allur á Eiðum. Nokkur fjöldi þeirra er þegar kominn í vinnu enda sár skortur á vinnuafli á fjölmörgum stöðum hér austanlands.

Aðspurð út í aðstæðurnar á Eiðum og tilfinninguna við að vera komin hingað austur voru allir fegnir að komast frá stríðsátökum og hraðversnandi aðstæðum í heimalandinu. Fólkið sömuleiðis sammála að móttökurnar hefðu verið afar góðar hér fyrir austan, ýmislegt væri í boði bæði til dægrastyttingar og eins hjálp við að koma sér inn í menninguna hérlendis.

Að sama skapi voru flestir á því að gott væri að vera á Eiðum og öll aðstaða þar fín þó reyndar nokkrum finndist staðurinn helst til langt frá næsta þéttbýli. Rútuferðir til og frá eru þó reglulega í boði milli Eiða og Egilsstaða fyrir hópinn.

Opið hús var hjá Rauða krossinum á Egilsstöðum á laugardaginn var og þar hægt að kynnast fyrsta stóra hóp flóttamanna frá stríðshrjáðri Úkraínu sem kemur hingað austur á land.