„Lagfærðum það sem okkur blöskraði mest“
„Ég get tekið heils hugar undir það að þetta var mjög sjokkerandi að sjá og svæðið töluvert verra útlits en við áttum von á,“ segir Magnús Guðmundsson, en hann ásamt nokkrum félögum úr Austurlandsdeild ferðaklúbbsins 4x4 eyddu dagsstund fyrir skömmu að lagfæra djúp og ljót utanvegahjólför á Kverkfjallaleið.
Ástæða þess að klúbbfélagarnir héldu af stað til lagfæringa voru myndir sem Þórhallur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Fljótsdalshéraðs hafði tekið nokkrum dögum áður á svæðinu þar sem glögglega mátti sjá mörg og djúp för víða í sandinum. Þær myndir vöktu hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum.
Þrátt fyrir að vera að frá morgni til kvölds að raka yfir og fylla í hjólför sem eru mjög áberandi á þessum slóðum sást varla högg á vatni að sögn Magnúsar. Greinilegt sé að mjög margir aki þarna utan slóða og ekki bæti úr skák að enginn virðist lagfæra hjólför sem séu utan við mörk Vatnajökulsþjóðgarðs en þjóðgarðsverðir lagfæra slóða innan garðsins.
„Þetta eru bara munaðarlausir vegir og í kring mikið af djúpum og jafnvel margra ára gömlum hjólförum eftir þunga bíla,“ segir Magnús. „Sum þeirra svo djúp að ég er hissa að bílarnir skuli ekki hafa oltið. Það er ljóst að utanvegaakstur þarna er algengur því strax á leiðinni til baka þá rákumst við á ný og fersk hjólför sem ekki voru fyrir þegar við komum um morguninn.“
Til tals kom meðal félaganna í ferðinni hvort skynsamlegt væri að gera slíka ferð að árlegum viðburði. Ljóst megi vera að þörfin er brýn og sjálfur telur Magnús það líklegra en ekki.
„Það væri þarft og gott mál að okkar viti. Reyna þá að fá aðra og fleiri með okkur því nóg er þarna að gera. Það má hvort sem er vera félagar okkar í klúbbum fyrir norðan eða bara almennir borgarar sem láta sig málið varða. Mér finnst líklegt að það verði raunin á næsta ári.“
Ein margra mynda sem félagarnir í Austurlandsdeild 4x4 tóku við Kverkfjallaleið fyrir skömmu. Djúp hjólför á stórum svæðum allt í kring um veginn og þörf á mun meira mannafli til að vinna bót á. Mynd Jón Garðar Helgason