Landsréttur staðfesti úrskurð um nálgunarbann
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. ágú 2022 19:38 • Uppfært 22. ágú 2022 13:29
Landsréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms Austurlands og þar áður ákvörðun lögreglustjórans á Austurlandi frá í byrjun mánaðarins um að karlmanni verði gert að sæta þriggja mánða nálgunarbanni fyrir ítrekað áreiti í garð fyrrverandi sambýliskonu sinnar.
Í dómi Landsréttar kemur fram að konan hafi fyrri í sumar leitað aðstoðar lögreglu vegna andlegs ofbeldis innan heimilisins. Síðar hafi þau bæði komið til lögreglu og lagt fram kvartanir í garð hvors annars.
Í kjölfarið aðstoðaði lögregla og félagsþjónusta konuna með að komast af heimilinu með börn þeirra. Hún hafi einnig notið aðstoðar yfirvalda við að sækja eigur sínar. Fram kemur að maðurinn hafi í viðurvist lögreglu hótað því að koma á nýtt heimili konunnar til að sækja börnin.
Konan hringdi síðar í lögreglu og lét vita að maðurinn væri fyrir utan nýja heimilið þar sem hann hefði barið á hurðir og glugga og reynt að komast inn um einn. Maðurinn var farinn áður en lögreglan kom en nágranni sá til hans. Sá bar að maðurinn hefði áður margsinnis ekið framhjá.
Í dóminum kemur fram að maðurinn hafi ítrekað reynt að senda konunni skilaboð og hringja í hana. Alls eru talin 161 hringing yfir eina helgi.
Er það því niðurstaða dómsins um að rökstuddur grunur sé um að maðurinn hafi raskað friði heimilislífs konunnar og sýnt sé að hann verði ekki verndaður öðruvísi en með nálgunarbanni. Við það er tekið tillit til þess að hann var árið 2019 sakfelldur fyrir minniháttar líkamsárás gegn konunni.
Lögregla fór upphaflega fram á sex mánaða nálgunarbann en stytti það niður í þrjá mánuði. Það felur í sér að maðurinn má ekki koma nær heimili konunnar en sem nemur 50 metrum, ekki nálgast hana á almannafæri eða vinnustað eða hringja í hana, senda henni skilaboð rafræn eða skrifleg eða reyna á annan hátt að sækja sig í hana næstu þrjá mánuðina.