Leggja til lækkun fasteignaskatts í Múlaþingi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. nóv 2022 09:18 • Uppfært 09. nóv 2022 09:18
Lögð er til 5% lækkun á fasteignagjöldum í Múlaþingi í fyrstu drögum að fjárhagsáætlun næsta árs. Fulltrúi Austurlistans í byggðaráði telur skynsamlegra að fara aðrar leiðir til að létta álögum af íbúum.
Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auk fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í byggðaráði samþykktu á fundi byggðaráðs á mánudag að vísa drögum að fjárhagsáætlun til umræðu í sveitarstjórn.
Þar inni er tillaga um að álagningarhlutfall um að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda úr 0,5% í 0,475%. Byggir tillaga meirihlutans á því að með þessu sé verið að koma á móts við miklar hækkanir sem hafa orðið á fasteignagjöldum í sveitarfélaginu samhliða hækkun fasteignamats en það hækkar um 19% á næsta ári í Múlaþingi.
Eyþór Stefánsson, fulltrúi Austurlistans, sat hjá við afgreiðsluna. Í bókun hans kemur farm að með lækkun hlutfallsins minnki beinar tekjur sveitarfélagsins um 20 milljónir auk þess sem framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga skerðist um 11 milljónir.
Nærtækara hefði verið að nýta það svigrúm til lækkunar gjalda með markvissari hætti án þess að skerða framlög úr Jöfnunarsjóði. Hægt hefði verið hægt að veita íbúum afslátt á gjöldum um allt að 31 milljón með minni hækkunum á leikskólagjalda, skólamáltíða eða með að hækka tómstundastyrk.
Fyrsta umræða um fjárhagsáætlunina verður á fundi sveitarstjórnar síðar í dag.