Leggjast alfarið gegn áformum um gjaldtöku í jarðgöngum
Í Fjarðabyggð er auk Norðfjarðarganga, Fáskrúðsfjarðargöng sem liggja milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Sækja íbúar vinnu og þjónustu milli fjarða en dæmi eru um þá sem sækja vinnu frá Fáskrúðsfirði til Norðfjarðar. Á þeirri leið er því um tvenn jarðgöng að fara og yrði íbúi búsettur á Fáskrúðsfirði að greiða tvöfalt gjald þar sem hann færi um tvenn jarðgöng til vinnu sinnar.
Ofangreint er meðal þess sem fram kemur í umsögn Fjarðabyggðar vegna fyrirhugaðs frumvarps Sigurðar Inga Jóhannessonar, innviðaráðherra, um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða. Það frumvarp, auk annars, gerir ráð fyrir gjaldtöku í framtíðinni af allri umferð um jarðgöng á Íslandi sem nota skal til að fjármagna rekstur og viðhald þeirra sem og hluta framkvæmdakostnaðar nýrra jarðganga.
Alls bárust ellefu umsagnir um fyrirhugað frumvarp gegnum samráðsgátt stjórnvalda og þó velflestir taki vel í að ráðist verði í skilgreindar þjóðhagslegar og arðsamar flýtiframkvæmdir á grundvelli fjölbreyttari fjármögnunar eru allar umsagnirnar neikvæðar er varðar gjaldtöku vegna umferðar um jarðgöng.
Allflestir sem leggja orð í belg vegna málsins telja það mikla mismunun að ætla íbúum í fámennum byggðum með göngum að greiða þau niður á meðan ekkert sérstakt gjald sé tekið af stórum vegaframkvæmdum suðvestanlands. Flestir sammála því að eðlilegra sé að koma á kílómetragjaldi fyrir raunverulega notkun bílaflotans óháð staðsetningu til að greiða fyrir uppbyggingu vegakerfisins.
Í umsögn Fjarðabyggðar er einnig vikið að alvarlegum áhrifum í fjölkjarna sveitarfélagi þar sem hugsanlega þarf að fara um jarðgöng vegna skólasóknar, menntunar, íþrótta- og félagsstarfs.
Ljóst er af þessum dæmum að ef af áformum ríkistjórnarinnar verður um slíka gjaldtöku þá mun hún leggjast þungt á íbúa og fyrirtæki á afmörkuðum svæðum og jafnræðis væri ekki gætt sem getur gjaldfellt ákveðin svæði til búsetu eða starfrækslu fyrirtækja. Sérstaklega á það við þar sem einvörðungu er um eina samgönguæð að ræða og hún er gjaldskyld. Áhrif gjaldtöku eins og kynnt er í áformum ríkisins er því verulega neikvæð frá mörgum hliðum.
Frestur til að senda athugasemdir vegna frumvarps ráðherra er liðinn og fara starfsmenn innviðaráðuneytis nú yfir þær. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar þeirri yfirlegu er lokið.
Úr Fáskrúðsfjarðargöngum. Verði frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, að veruleika gæti hver ferð í þessu göng og önnur á svæðinu kostar 300 krónur. Mynd Vegagerðin