Leita uppi glæður í gólfinu

Slökkviliðið á Egilsstöðum er enn að störfum í húsinu að Miðási 7 sem er stórskemmt eftir mikinn eldsvoða í þvottahúsi og verslun Vasks þar í dag. Enn eru glæður í rústunum.

„Við erum að reyna að fullvissa okkur um að við höfum fullvarið Landsnet og það gerum við ekki nema koma okkur í gegnum hauginn á gólfinu.

Við erum komin með kranabíl til að róta betur ofan í því sem er á gólfinu. Það eru glæður í þessu og rýkur mikið úr,“ segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkvistjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi.

Eldurinn kom upp um klukkan hálf fimm í dag og skíðlogaði fljótt í húsinu. Frá upphafi hefur slökkvistarfið snúist um að verja þann hluta hússins sem Landsnet er með starfsemi í og virðist það hafa tekist að mestu.

Í tilkynningu frá Landsneti í kvöld segir að allir sem að slökkvistarfinu komu hafi unnið þrekvirki með að verja aðstöðuna og eru þeim færðar þakkir. Eins sé þakkarvert að enginn hafi slasast þegar húsnæði Landsnets var tæmt en starfsmenn fyrirtækisins tóku þátt í þeim aðgerðum. Hugurinn sé þó hjá nágrönnunum í Vaski sem hafi farið illa út úr deginum.

Þar kemur fram að þótt að mestu hafi tekist að verja Landsnetshlutann hafi það skemmst af völdum reyks og vatns. Tjónið verði með með tryggingafélagi þegar hættulaust verður að fara inn í húsið. Þegar er hafin leit að húsnæði undir starfsfólk og tækjabúnað Landsnets og bjartsýni á að það takist mjög hratt.

Í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi í kvöld er brýnt fyrir íbúum á Egilsstöðum að hafa glugga lokaða í nótt til að hindra að efni úr reyknum berist inn í hús. Þeim sem finna fyrir öndunarerfiðleikum eftir brunann er bent á að hafa samband í síma 1700 eða í síma 112 ef neyðarástand skapast.

Þar eru viðbragðsaðilum færðar þakkir fyrir aðkomu að slökkvistarfi sem og íbúum fyrir skilning á beiðnum um að halda sig til hlés og virða lokanir á vegum sem vara meðal slökkvistarfi stendur, en aðalinngangur Vasks snýr að Fagradalsbraut, umferðaræð sem liggur þvert í gegnum Egilsstaði.

HEF veitur sendu í kvöld frá sér tilmæli til íbúa um að spara kalt vatn því slökkviliðið þurfi mikið vatn fram eftir kvöldi.

Þá segir í færslu frá Egilsstaðaprestakalli að eðlilegt sé að finna fyrir vanlíðan, ótta eða kvíða í tengslum við atburði sem þessa. Prestar svæðisins séu reiðubúnir til samtals við þau sem vilja ræða líðan sína og upplifun í trúnaði.

Brunavakt verður við húsið fram á morgun eftir að slökkvistarfi lýkur. Gert er ráð fyrir að rannsókn á upptökum brunans hefjist á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.