Létu fyrirberast í björgunarsveitarbílnum í nótt
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. okt 2022 10:07 • Uppfært 10. okt 2022 10:36
Félagar úr björgunarsveitinni Jökli á Jökuldal og tveir einstaklingar sem bjargað var úr bíl við Ánavatn í gærkvöldi eru nú loks á heimleið eftir langa ferð. Kalla varð út aðstoð úr Fjarðabyggð eftir að björgunarsveitarbíllinn festist á leið til byggða í nótt.
Útkall barst á sjötta tímanum í gær vegna tveggja einstaklinga sem sætu fastir. Upphaflega var talið að þeir væru skammt frá afleggjaranum frá Jökuldalsheiði inn að Sænautaseli en í ljós kom að þeir voru töluvert lengra inn á heiðinni, nánar til tekið á Brúarleið, við mitt Ánavatn.
Sigmar Daði Viðarsson, formaður Jökuls, segir ferðalangana ekki hafa verið fyrirstöðu á veginum heldur hafi verið blint þannig ekki sást fram fyrir húddið á bílnum. Björgunarsveitarmenn fengu einnig að reyna það. „Það var algjörlega þreifandi bylur og við sáum aldrei neitt. Það voru heldur engar stikur á veginum inn eftir þannig við urðum bara að stinga höfðunum út út gluggann og horfa í kantinn,“ segir hann.
Björgunarsveitin nálgaðist fólkið úr norðri og kom að því um klukkan ellefu í gærkvöld. Ákveðið var að fara áfram til suðurs niður í Brú, bæði því betra væri að keyra undan veðrinu og styttra en þá reyndist „allt komið á kaf í snjó.“ Endaði það með því að um eitt leytið sat björgunarsveitarbíllinn fastur og báru tilraunir til að losa hann engan árangur. Reynt var að fara á móti honum neðan úr dal á stórri dráttarvél en það gekk ekki heldur.
Að lokum voru kallaðir til bílar frá björgunarsveitunum á Reyðarfirði og í Neskaupstað. Þeir komu til móts við fólkið um klukkan sjö í morgun. Rétt fyrir klukkan tíu voru allir bílarnir komnir niður að Skjöldólfsstöðum.
Svo virðist sem ferðamennirnir hafi ætlað milli Stuðlagils og Möðrudals eftir vísan leiðsögutækis. Á leiðinni er vanalega slá sem lokar veginum á veturna en hún var ekki komin niður í gær. Sigmar Daði segir þó að vegalokanir í gær hafi almennt reynst afar vel. „Mér finnst þær hafa svínvirkað. Við erum að elta einn bíl en ekki 25-50 eins og stundum áður. En það þarf alltaf að vera þessi eini,“ segir hann.
Af hálfu Landsbjargar og annarra viðbragðsaðila var lagt í töluverða vinnu við að ná til ferðafólks í gær og sendir út þúsundir SMS-skeyta með veðurviðvörunum og upplýsingum um lokanir. Fjöldi ferðafólks kaus þó, og þrátt fyrir frekari viðvaranir, að fara af stað en sýndi skilning þegar það mætti að auki björgunarsveitarfólki á lokunarstöðum.
Frá aðgerðum við Ánavatn í gærkvöldi. Mynd: Jöklar