Skip to main content

Lítið foktjón og engin slys

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. okt 2022 08:33Uppfært 10. okt 2022 09:21

Lokanir á vegum á Austurlandi eru velflestar enn í gildi þótt dregið hafi úr veðrinu sem gekk yfir fjórðunginn í gær. Ekki virðist hafa orðið teljandi tjón í veðurofsanum. Björgunarsveitir fylgdu í nótt sjúkrabíl yfir Fagradal.


Þrátt fyrir talsverða úrkomu og hávaðarok var sólarhringurinn tiltölulega rólegur hjá viðbragðsaðilum. Kallað var út vegna ferðamanna sem festust nærri við Ánavatn, skammt sunnan við Sænautasel í Jökuldalsheiði í gær. Enn er verið að koma þeim niður. Þá voru ferðamenn fastir í bíl sínum á Hellisheiði eystri og aðstoðaðir af björgunarsveitum.

Á Djúpavogi stefndi í skemmdir á íbúðarhúsnæði um miðnætti vegna foks en það var snarlega heft. Þá fylgdu björgunarsveitir sjúkrabíl milli Egilsstaða og Norðfjarðar í nótt. Björgunarsveitir aðstoðuðu Vegagerðina við lokun vega.

Þótt aðgerðastjórn almannavarna lyki störfum upp úr miðnætti varð þá afskaplega hvasst. Mesta hviða veðursins mældist í Hamarsfirði um hálf eitt, 60 m/s.

Lítið ferðaveður er enn og flestar lokanir í gildi. Fjarðarheiði opnaði rétt fyrir klukkan átta en enn er lokað um Fagradal og með ströndinni frá Breiðdalsvík og suðureftir. Eins er lokað yfir Vatnsskarð, Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði. Þá fauk gámur og lokaði veginum inn í Suðurdal Fljótsdals í nótt.

Appelsínugul viðvörun fyrir Austfirði hefur verið framlengd til klukkan tíu en féll úr gildi á Austurlandi klukkan níu. Áfram má þó búast við einhverjum rokum fram á kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá aðgerðastjórn hefur almennt gengið vel, lítið sem ekkert foktjón orðið og ekki vitað um nein slys á fólki.

Mynd úr safni.